Láttu þína rödd heyrast

Uppfærsla á Sóknaráætlun Suðurlands er nú í vinnslu hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, SASS. Íbúar eru hvattir til að svara nokkrum könnunum því mikilvægt er að raddir íbúa heyrist og skili sér inn í áætlanagerðina. Eftirfarandi er tilkynning frá SASS og hér eru tenglar á kannanirnar.

Nú köllum við eftir rödd íbúa við uppfærslu Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir tímabilið 2025-2029. Sóknaráætlun er stefnumörkun sveitarfélaganna fimmtán á Suðurlandi í byggðamálum. SASS hefur umsjón með gerð áætlunarinnar en hún er fyrst og fremst sameiginleg byggðastefna okkar allra, sveitarfélaganna og íbúanna. Tekur hún til allra þátta er koma að sjálfbærri byggðaþróun; umhverfismála, atvinnu og nýsköpunar og samfélags- og menningarmála. Áætlunin hefur hingað til og mun áfram hafa áhrif á áherslur og markmið Uppbyggingarsjóðs Suðurlands og hvaða áhersluverkefni eru unnin hér á Suðurlandi.

Kannanirnar þrjár byggja á niðurstöðum vinnufundar um Sóknaráætlun sem fram fór á aukaaðalfundi SASS í Vestmannaeyjum vorið 2024.

Hlekkurinn á kannanirnar er: https://www.sokn.sass.is

 

Við hvetjum alla íbúa Rangárþings ytra til að taka þátt og láta í sér heyra, okkar raddir skipta máli og með því að svara könnunum á borð við þessar getum við haft áhrif á stefnumótun.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?