Kvenfélagið Unnur fagnar 102 ára afmæli

Kvenfélagið Unnur á Rangárvöllum fagnar afmæli í dag en félagið var stofnað 30. desember árið 1922 á Minna-Hofi á Rangárvöllum. Komu þangað konur á hestum víða frá Rangárvöllum, veðurathuganir sýndu að veðrið var stillt og snjólítið þennan dag.

Fyrir 102 árum stofnuðu framsæknar konur kvenfélagið með það að markmiði að auka kynni og samheldni kvenna í samfélaginu, markmið sem hefur staðið óhaggað í gegnum árin.

Í gegnum tíðina hefur Kvenfélagið Unnur lagt mikið af mörkum til samfélagsins á Hellu og nágrenni. Á meðal þess sem félagið hefur styrkt eru:

  • Dvalarheimilið Lundur og Heilsugæslan á Hellu, sem tryggja velferð íbúa á öllum aldri.
  • Grunnskólinn á Hellu, sem sinnir uppbyggingu næstu kynslóða.
  • Leikskólinn á Hellu, sem fagnaði 50 ára tímamótaafmæli í sumar.
  • Sjúkraflokkur Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, sem tryggir öryggi í okkar samfélagi.
  • Unglingadeild Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, sem sinnir mikilvægu starfi með unglingum og hefur hlotið mikið lof fyrir sitt framlag.

Auk þess höfum við í Kvenfélaginu Unni staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum, meðal annars haldið fyrirlestra með ýmsum áhugaverðum fyrirlesurum. Kvenfélagið hefur haldið jólatrésskemmtun um árabil á milli jóla og nýárs fyrir börnin sem hefur verið vel sótt.

Við leggjum einnig mikla áherslu á samvinnu og höfum átt farsælt samstarf við önnur kvenfélög í Rangárþingi ytra, þar sem við vinnum saman að því að efla samfélagið okkar.

Við erum stoltar af því að leggja okkar af mörkum til samfélagsins og vinna að velferð og samheldni.

Með stolti horfum við til baka yfir það sem hefur verið gert og áfram til framtíðar með bjartsýni og þakklæti.

 

Við bjóðum nýjar konur á öllum aldri velkomnar að kynnast okkur og okkar góða starfi.

 

Að lokum óskum við öllum gleðilegs nýs árs og vonum að árið 2025 verði gæfuríkt og gott fyrir alla!

 

F.h. Kvenfélagsins Unnar

Helga Dagrún Helgadóttir, formaður

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?