Kristín Sigfúsdóttir nýr skólastjóri á Hellu

Kristín Sigfúsdóttir er 56 ára aðstoðarskólastjóri við Laugalandsskóla. Hún er fædd og uppalin á Selfossi en á ættir sínar að rekja í Rangávallasýslu og býr á Hellu með fjölskyldu sinni. Kristín er grunnskólakennari að mennt og hefur tekið meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun menntastofnana. Hún hefur sinnt kennslu í grunnskólunum í Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri, Hellu auk starfa sinna í Grunnskólanum á Laugalandi. Hún hefur frá árinu 2013 starfað sem aðstoðarskólastjóri við Laugalandsskóla. Þá hefur Kristín lokið 8 stigi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík og hefur mjög víðtæka reynslu sem kórstjórnandi.

 

Starfið var auglýst í Morgunblaðinu, Dagskránni og Búkollu og á heimasíðu Rangárþings ytra í mars 2019 með umsóknarfrest til 8. apríl 2019. Umsækjendur voru 5 talsins. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur  uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að mjög góðar umsóknir lágu fyrir. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri eftir einstaklingi sem væri tilbúinn til að ganga glaður til verka og leiða af dugnaði öflugt skólasamfélag með samstöðu og árangur að leiðarljósi. Jafnframt var lagt upp úr því að nýr skólastjóri væri tilbúinn að viðhalda þeim góða skólabrag sem einkennt hefur starf Grunnskólans á Hellu. Gerðar voru þær menntunar- og hæfniskröfur að umsækjandi hefði leyfisbréf sem grunnskólakennari og byggi að farsælli kennslureynsla í grunnskóla. Þá þyrfti umsækjandi að hafa framhaldsmenntun á sviði stjórnunar eða uppeldis- og menntunarfræða og/eða búa að farsælli stjórnunarreynslu. Önnur atriði sem lögð voru til grundvallar voru færni og reynsla í starfsmannastjórnun, stefnumótun og áætlanagerð og hæfni í samskiptum. Þá var reynsla í fjármálastjórnun talinn kostur.

Eftir yfirferð og kynningu umsókna í stjórn Odda bs var ákveðið að bjóða öllum 5 umsækjendum til viðtals þann 24-26 apríl 2019. Viðtölin tóku Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra og framkvæmdastjóri Odda bs, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri Ásahrepps og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir stjórnarmaður í Odda bs og sveitarstjórnarfulltrúi í Rangárþingi ytra. Umsækjendur mættu til viðtals á Hellu og hvert viðtal tók allt að 1 klst.

Það var samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að hæfust til að gegna starfinu væri Kristín Sigfúsdóttir. Haft var samband við samstarfsaðila úr fyrra starfi og fékk hún góða umsögn þar til að gegna starfi skólastjóra.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?