Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra nú í nóvember var lagt fram erindi frá sveitarstjórn Skaftárhrepps þar sem óskað er eftir því við sveitarstjórnir Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra og Rangárþings ytra að hefja að nýju könnun möguleika á sameiningu sveitarfélaganna. Mýrdalshreppur hefur þegar svarað og fellur frá þátttöku að sinni.
Sveitarstjórn okkar hér í Rangárþingi ytra ákvað að fresta afgreiðslu erindisins en láta fara fram könnun á afstöðu íbúa í Rangárþingi ytra til frekari skoðunar á sameiningu. Sveitarfélagið hefur samið við Maskínu ehf um að framkvæma könnunina. Könnunin fer fram dagana 1-8 desember n.k. og er stefnt að því að ná til sem flestra af íbúum Rangárþings ytra 18 ára og eldri. Starfsmenn Maskínu munu hringja í íbúa og senda SMS og netpóst til þeirra sem ekki næst til með öðrum hætti. Spurt verður hvort íbúar vilji skoða sameiningu með sveitarfélögunum Skaftárhreppi og Rangárþingi eystra; eða skoða sameiningu með Rangárþingi eystra eða láta staðar numið með skoðun á sameiningu að sinni. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í könnuninni og segja sína skoðun.