Ingigerður Stefánsdóttir er 57 ára leikskólastjóri við leikskóla Snæfellsbæjar. Ingigerður er leikskólakennari að mennt og útskrifaðist frá Kennaraháskólanum í Solna, Stokkhólmi 1987 og tók diplómagráðu í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands 2004. Þá hefur Ingigerður sótt margháttuð fagnámskeið á sviði leikskólakennslu og stjórnunar á umliðnum árum. Hún hefur starfað sem leikskólastjóri í 29 ár, fyrst á Ísafirði árin 1991-2003 og frá árinu 2003 hjá Snæfellsbæ og þar af nú síðustu árin sem forstöðumaður beggja starfsstöðva hans á Hellissandi og Ólafsvík. Á Ísafirði tók Ingigerður þátt í að byggja upp nýjan leikskóla frá grunni. Ingigerður hefur því mjög víðtæka reynslu af stjórnun leikskóla og hefur átt mjög farsælan feril á þeim vettvangi. Auður Erla Logadóttir fráfarandi leikskólastjóri lætur af störfum um áramótin en Rósa Hlín Óskarsdóttir aðstoðarleikskólastjóri mun stýra leikskólanum í samstarfi við Ingigerði þar til hún kemur að fullu til starfa í Heklukoti næsta vor.
Greinargerð:
Starfið var auglýst í Morgunblaðinu, Bændablaðinu, Dagskránni og Búkollu og á heimasíðu Rangárþings ytra í október 2020 með umsóknarfrest til 20. október 2020. Umsækjendur voru 3 talsins. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að mjög góðar umsóknir lágu fyrir. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri eftir einstaklingi sem væri tilbúinn til að ganga glaður til verka og leiða af dugnaði öflugt leikskólasamfélag með samstöðu og árangur að leiðarljósi. Gerðar voru þær menntunar- og hæfniskröfur að umsækjandi hefði leikskólakennaramenntun eða leyfisbréf samkvæmt núgildandi lögum og byggi að farsælli starfsreynslu í leikskóla. Þá þyrfti umsækjandi að hafa framhaldsmenntun á sviði stjórnunar eða uppeldis- og menntunarfræða og/eða búa að farsælli stjórnunarreynslu. Önnur atriði sem lögð voru til grundvallar voru færni og reynsla í starfsmannastjórnun, stefnumótun og áætlanagerð og hæfni í samskiptum. Þá var reynsla í fjármálastjórnun talinn kostur. Eftir yfirferð og kynningu umsókna í stjórn Odda bs var ákveðið að bjóða öllum 3 umsækjendum til viðtals þann 4. nóvember 2020. Viðtölin tóku Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra og framkvæmdastjóri Odda bs, Björk Grétarsdóttir formaður stjórnar Odda bs, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri Ásahrepps og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir stjórnarmaður í Odda bs. Umsækjendur mættu hver og einn til viðtals á fjarfundi (Zoom) og hvert viðtal tók allt að 1 klst.
Það var samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að hæfust til að gegna starfinu væri Ingigerður Stefánsdóttir. Haft var samband við samstarfsaðila úr núverandi starfi og fékk hún góða umsögn þar til að gegna starfi leikskólastjóra.