Iðnaðarmenn á námskeið til að hindra vatnstjón
IÐAN fræðslusetur auglýsir um þessar mundir námskeið fyrir iðnaðarmenn sem starfa við byggingu og frágang votrýma, svo sem eldhúsa, baðherbergja og þvottahúsa. Tilgangurinn er að auka fagmennsku og þekkingu iðnaðarmanna til að draga úr því gríðarlega vatnstjóni sem verður á heimilum og í fyrirtækjum ár hvert. Í haust verður boðið upp á framhaldsnámskeið fyrir einstakar iðngreinar. Námskeiðin eru sett upp að frumkvæði samstarfshóps um varnir gegn vatnstjóni.
Ólafur Ástgeirsson, sviðsstjóri hjá IÐUNNI, segir að mikill metnaður sé fyrir því hjá meistarafélögum iðnaðarmanna að auka fagmennsku og þekkingu í gerð og frágangi votrýma.
„Við erum meðal annars að svara eftirspurn frá iðnaðarmönnum sem vilja afla sér sérþekkingar á þessu sviði. Alltof algengt er að tjón verði vegna þess að frágangur í baðherbergjum, eldhúsum og þvottahúsum er unninn af fólki sem ekki hefur fagmenntun og kann ekki nægilega vel til verka, frágangur er ekki sem skyldi og röng efni eru notuð. Þetta getur haft gríðarlega óheppilegar afleiðingar fyrir húseigendur. Þeir verða fyrir talsverðu eignatjóni og jafnvel heilsutjóni þar sem kjöraðstæður myndast fyrir myglu. Það verður væntanlega mikil eftirspurn eftir þeim iðnaðarmönnum sem hafa aflað sér sérþekkingar á frágangi í votrýmum á námskeiðunum hjá okkur,“ segir Ólafur. Upplýsingar um námskeiðin er að finna á www.idan.is.
Samstarfshópur um varnir gegn vatnstjóni
Ellefu fyrirtæki, stofnanir og samtök hafa myndað samstarfshóp um varnir gegn vatnstjóni. Gríðarlegt eignatjón, mikil óþægindi og jafnvel heilsutjón verður vegna vatnsleka, raka og myglu á íslenskum heimilum ár hvert. Tryggingafélögin bæta hluta tjónsins en verulegar fjárhæðir lenda á heimilunum. Samstarfshópurinn telur að mjög megi draga úr þessu tjóni með fræðslu til almennings og aukinni þekkingu og fagmennsku iðnaðarmanna.
Að samstarfshópnum standa Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara, Félag pípulagningameistara, IÐAN fræðslusetur, Mannvirkjastofnun, Múrarameistarafélag Reykjavíkur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök um loftgæði, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar hf.