Íbúar í Rangárvallasýslu almennt hamingjusamir með búsetu sína samkvæmt nýrri könnun

Í nýútkominni íbúakönnun landshlutanna er dregin saman afstaða íbúa til eigin hamingju og almennrar ánægju með þjónustu sveitarfélagsins. Könnuninn mælir alls 40 búsetuskilyrði eftir 24 landshlutum.

Samkvæmt könnuninni eru íbúar Rangárvallasýslu almennt hamingjusamir með búsetu sína, sérstaklega hvað varðar náttúrufegurð, friðsæld og öryggi. Þessir þættir eru þeim einnig mikilvægastir, sem undirstrikar hversu mikils virði þeir eru fyrir lífsgæði íbúanna. Að sama skapi eru íbúar ánægðir með þjónustu sveitarfélaganna.

Í Rangárvallasýslu skera dvalarheimili og leikskólar sig úr með miklum framförum frá fyrri könnun. Þá eru íbúar einnig ánægðir með þjónustu sveitarfélaganna og atvinnuöryggi virðist gott. Þá hefur fækkað í hópi þeirra sem hyggjast flytja frá sýslunni.

Könnunin leiddi þó einnig í ljós dýrmætar upplýsingar fyrir sveitarfélögin. Íbúar eru óánægðastir með vöruverð, framfærslukostnað og takmarkað atvinnuúrval. Þessir þættir hafa jafnframt versnað frá síðustu könnun og eru íbúum mjög mikilvægir. Að auki benda niðurstöðurnar til þess að bæta þurfi aðstöðu til leiguíbúða og almenningssamgangna. Athygli vekur að helmingur íbúa telur að of margir ferðamenn séu í sýslunni, sem er hæsta hlutfall á Suðurlandi.

Könnunin gefur sveitarfélögunum og öðrum aðilum í Rangárvallasýslu dýrmæta innsýn í hvaða þætti þarf að bæta. Með því að hlusta á raddir íbúa og taka tillit til þessara niðurstaðna geta þau unnið markvisst að því að gera sýsluna enn betri stað til að búa í og starfa. Það felur meðal annars í sér að bæta kjör á vinnumarkaði, auka fjölbreytni atvinnutækifæra, efla innviði og viðhalda góðri þjónustu við íbúa. Með því að takast á við þessar áskoranir og byggja á þeim styrkleikum sem þegar eru til staðar getur Rangárvallasýsla orðið enn eftirsóknarverðari staður til búsetu á komandi árum.

Hér má sjá könnunina í heild sinni.

Um íbúakönnun landshlutanna:

Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni allra landshlutasamtaka utan höfuðborgarsvæðisins, ásamt Byggðastofnun. Könnunin hófst haustið 2023 en dróst fram á veturinn 2024. Þátttakendur voru um 11.500. Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, pólsku og ensku. Íbúakönnunin var fyrst framkvæmd á Vesturlandi árið 2004 en síðan á þriggja ára fresti. Könnunin var nú framkvæmd í annað sinn á öllu landinu.

 

Stefán Friðrik Friðriksson, byggðaþróunarfulltrúi Rangárvallsýslu, tók saman.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?