Þau tíðindi bárust frá Þjóðskrá á dögunum að íbúafjöldi Rangárþings ytra hefði náð 2000. Líkt og tilkynnt var um fyrr á árinu vitum við þó að ekki er hægt að treysta fullkomlega á tölurnar frá Þjóðskrá.
Ástæðan er sú að útreikningar og athuganir leiddu nýverið í ljós að íbúafjöldi landsins alls væri stórlega ofmetinn vegna þess að töluvert væri um að fólk sem kæmi hingað, t.d. til tímabundinnar vinnu, passaði almennt upp á að skrá sig inn í landið en sinnti því síður að skrá sig úr landi við brottför. Þetta skekkir tölurnar og nær þetta til okkar sveitarfélags eins og annarra.
Staðan er því sú að Þjóðskrá telur okkur vera 2002 talsins en nýjustu tölur Hagstofunnar, sem eru frá 1. janúar 2024, gefa til kynna að við séum 1867.
Rétt tala er því væntanlega eitthvað í kringum 1900 svo við bíðum bara áfram eftir því að rjúfa 2000 manna múrinn. Ánægjulegt er þó að skoða mannfjöldaþróun sem sýnir glögglega að okkur fjölgar jafnt og þétt en íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um 35% frá síðustu aldamótum.
Áhugasöm geta skoðað gögn um mannfjöldaþróun og fleira á mælaborði Byggðastofnunar.