Skeiðvellir í Rangárþingi ytra
Skeiðvellir í Rangárþingi ytra

Í Rangárþingi ytra eru nokkur af stærstu hrossabúum landsins. Flest byggja þau afkomu sína á hrossarækt, tamningum, þjálfun og reiðkennslu. Á undanförnum árum hefur það hins vegar færst í vöxt að hrossabú hafa bætt hestatengdri ferðaþjónustu við reksturinn; hestaferðum og gistingu. Eitt þessara búa er Skeiðvellir í Holta- og Landsveit.

Þrír ættliðir að störfum
Á Skeiðvöllum búa þrír ættliðir sömu fjölskyldu. Sigurður og Lisbeth Sæmundsson eru afinn og amman. Þau bjuggu áður í 25 ár á næsta bæ, Holtsmúla, og ráku þar hrossabú og ólu upp tvær dætur sínar, Katrínu og Elínu. Sigurður, eða Siggi Sæm eins og hann er jafnan kallaður, var um langt árabil einn af fremstu reiðmönnum landsins, var landsliðseinvaldur og þjálfari íslenska landsliðsins í hestaíþróttum í mörg ár og á þar að baki glæsilegan feril. Árið 2007 seldu þau hjónin Holtsmúlann en héldu eftir um 350 hekturum lands og byggðu þar upp nýbýlið Skeiðvelli ásamt Viðari Sæmundssyni, bróður Sigurðar, sem er fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður. Allar byggingar á Skeiðvöllum eru nýjar, þrjú íbúðarhús, glæsilegt hesthús og reiðhöll. Katrín er ferðamálafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er prímus mótor í markaðs- og kynningarmálum Skeiðvellinga.

Rekstrargrundvöllurinn tryggður
„Fljótlega eftir að við fluttum á Skeiðvelli ákváðum við að bjóða upp á stuttar hestaferðir, bara svona til prufu,“ segir Katrín. „Starfsemin sem við vorum með fyrir, þ.e. ræktun, tamingar, kennsla og hestasala, var á mörkunum að standa undir sér og ljóst að við urðum að víkka út starfsemina. Við áttum nokkur þæg fjölskylduhross, sem að vísu er ávallt markaður fyrir, en verðið á þeim var hins vegar ekki mjög hátt þá og því kom þessi hugmynd upp.

Ég er mjög ánægð með að við tókum þetta skref. Þetta vatt fljólega upp á sig og í dag er öll fjölskyldan meira og minna í fullu starfi við búið allt árið, auk þess sem við erum líka með annað starfsfólk, bæði í hestaferðum og skrifstofuvinnu. Við erum eingöngu með stuttar ferðir: klukkustundar ferðir, tveggja tíma ferðir og dagsferðir. Einnig bjóðum við upp á ódýrari pakka fyrir fólk sem vill eingöngu fara á bak í reiðhöllinni, klappa hestunum og svo framvegis, eða jafnvel bara skoða hestana í hesthúsinu og spjalla við þá.

Það má segja að það hafi verið óvænt og jákvæð aukaverkun að hestaferðirnar juku verðmæti hrossanna okkar heilt yfir. Áður, þegar trippin voru tekin til tamningar, stóðu væntingarnar til þess að þau yrðu sem flest hágeng og flott keppnishross, því það eru jú eftirsóttustu og dýrustu hrossin. Núna eru þægu, töltgengu og einföldu hrossin jafn mikils virði fyrir okkur, þannig að nú verða líka allir glaðir þegar ljóst er að eitthvert trippi er efni í þægt fjölskylduhross. Í dag er það því þannig að nánast öll hross sem við ræktum nýtast okkur á sinn hátt.“

Fólk vill gista og ríða út
Gott orðspor er besta auglýsingin, það er gömul saga og ný. Góð markaðssetning er vissulega nauðsynleg og lykilatriði þegar kynna á nýjar vöru og þjónustu. Hún dugar þó skammt ef viðskiptavinirnir eru ekki ánægðir. Aukninguna í ferðaþjónustunni á Skeiðvöllum má vafalítið rekja til þess að búið eru með fullt hús á vefsíðunni Tripadvisor, þar sem viðskiptavinir gefa fyrirtækjum umsagnir og einkunn.

„Þegar aðsóknin í hestaferðirnar jókst fórum við í framhaldi að leigja út gistingu í tveimur minni íbúðarhúsum hér á Skeiðvöllum og erum þar með svefnpláss fyrir 6-10 manns í uppbúnum rúmum, ásamt öllum helstu þægindum. Við notuðum Covid tímabilið vel og fórum í ýmsa vinnu sem hafði setið á hakanum, þar á meðal markaðssetningu. Það hefur strax skilað sér og nú erum við farin að fá mun fleiri pantanir fram í tímann frá ferðaskrifstofum, sem hefur það í för með sér að vinnuvikan er fyrirsjáanlegri og hægt að skipuleggja sig betur heldur en ef viðskiptavinir eru aðallega fólk sem kemur inn af götunni, eins og sagt er. Undanfarin misseri hefur það færst í vöxt að fólk vill kaupa í einum pakka gistingu, hestaferðir og reiðkennslu. Sumir eru hér á staðnum allt upp í átta daga. Ef maður hefur gaman að þessu, vandar sig og hugsar vel um sína gesti, þá spyrst það út.“

Breyttar áherslur
Óhætt er að segja að tilkoma hestatengdrar ferðaþjónustu á Skeiðvöllum hafi haft í för með sér breyttar áherslur í hrossabúskapnum, sem flestar eru jákvæðar.

„Það er vissulega mikil vinna við hestaferðirnar, kennsluna og gistinguna. Hin fjölbreytilegu mannlegu samskipti sem fylgja þessu útheimta mikla orku, en gefa manni orku líka. Við höfum eignast marga vini og sumir koma aftur og aftur. Við erum með opið næstum allt árið. frídagarnir eru ekki margir og ekki gott að merkja þá fyrirfram á dagatalinu. Við höfum því haft það fyrir reglu undanfarin ár að loka í tvær til þrjár vikur yfir jólin svo fjölskyldan geti notið þess að vera saman í næði yfir hátíðirnar.

Við temjum og þjálfum ekki lengur fyrir aðra, heldur eingöngu þau hross sem við ræktum og eigum sjálf, enda er það ærin vinna sem fylgir því að rækta hross, ala þau upp og temja. Það er þetta venjulega; heyskapur, járningar, akstur á hryssum undir stóðhesta og svo framvegis. Undanfarin ár höfum við líka lagt meiri áherslu á að taka þátt í keppni í hestasportinu, bæði til að halda okkur í formi sem knapar og einnig til að auka verðmæti þeirra hrossa sem falla í þann flokk.

Ég hef ennþá mjög gaman að því að taka á móti gestum og fara með þá í hestaferðir. En það er líka kærkomin tilbreyting að setjast á keppnishestana þegar koma hlé frá túrunum og njóta þess að vera á íslenskum gæðingi eins og þeir gerast bestir. Þetta er góð blanda, hrossabúskapur er allskonar. Ég er allavega alsæl og ég held ég geti sagt það fyrir hönd allrar fjölskyldunnar,“ segir Katrín Sigurðardóttir.

Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?