Golfvöllurinn á Strönd, Strandarvöllur, er ein mest sótta afþreyingin í Rangárþingi. Á hverju ári koma þangað um 10 þúsund gestir, og þá eru heimamenn ekki taldir með. Völlurinn er löglegur keppnisvöllur, 18 holur, og til viðbótar er lítill 6 holu völlur fyrir þá sem eru að slá sín fyrstu högg.
Sannkallað fjölskyldusport
Óskar Pálsson, húsasmiður á Hvolsvelli, hefur verið formaður GHR, Golfklúbbs Hellu Rangárvöllum, í 20 ár og var þar áður stjórnarmaður í 10 ár. Katrín Björg Aðalbjörsdóttir, eiginkona hans, er gjaldkeri golfklúbbsins og segja má að þau hafi verið saman á golfvellinum í nærri fjóra áratugi. Saman reka þau hjónin byggingafyrirtækið Krappa á Hvolsvelli, sem þau stofnuðu „bjórdaginn“ 1. mars 1989.
Óhætt er að segja að golfið sé fjölskyldusport á heimili Óskars og Kötu Bjargar, því börnin hafa fylgt foreldrum sínum á golfvöllinn og yngsti sonur þeirra, Andri Már, hefur um árabil verið í hópi snjöllustu kylfinga landsins. Hann varð Íslandsmeistari unglinga í golfi 17 ára og var í landsliði Íslands í golfi í mörg ár.
Golfvöllurinn á Strönd, Strandarvöllur, er ein mest sótta afþreyingin í Rangárþingi. Á hverju ári koma þangað um 10 þúsund gestir, og þá eru heimamenn ekki taldir með. Völlurinn er löglegur keppnisvöllur, 18 holur, og til viðbótar er lítill 6 holu völlur fyrir þá sem eru að slá sín fyrstu högg.
Göngustafurinn hans afa
Óskar hefur stundað golf síðan hann var um tvítugt, en þá varð hann fyrir því óhappi á fótboltaæfingu að krossband í vinstra fæti slitnaði. Hann fór til læknis sem tjáði honum að knattspyrnuferlinum væri lokið, sem líklega var þó skot út í loftið. Óskar tók hann hins vegar á orðinu og tók stefnuna á golfvöllinn, vitandi að þar eltu menn bolta gangandi í rólegheitum.
„Ég var tiltölulega fljótur að ná leikni í golfinu og fyrir vikið var ekki eins sársaukafullt að yfirgefa fótboltann. Ég hafði reyndar lengi haft augastað á golfinu og kynnst því lítillega. Fyrsta golfkylfan mín var göngustafurinn hans afa á Heylæk í Fljótshlíð. Það komu stundum virðulegir menn í heimsókn til Gunnars á vestari bænum á Heylæk og þeir sendu golfkúlur í af hlaðinu í allar áttir. Ég fann eina þeirra og notaði göngustafinn hans afa sem kylfu við æfingar. Seinna komst ég í alvöru golf þegar ég var í heimsókn hjá föður mínum í Lúxemburg og ætli það hafi ekki kveikt áhugann fyrir alvöru,“ segir Óskar sem 21 sinni hefur orðið klúbbmeistari GHR, oftar en nokkur annar klúbbfélagi, og hann er einnig í hópi þeirra fáu sem hafa farið holu í höggi á vellinum, og það tvisvar sinnum.
Á gömlu kennitölunni
Golfklúbbur Hellu er með elstu golfklúbbum landsins, stofnaður 22. júní 1952. Aðal hvatamenn að stofnun hans voru Ásgeir Ólafsson og Helmut Stolzenwald á Hellu, en fyrsti formaður klúbbsins var Rúdolf Stolzenwald. Þeir fengu land undir golfvöll á Gaddstaðaflötum, þar sem nú er keppnis- og sýningasvæði hestamanna. Völlurinn var notaður nokkuð reglubundið til 1958. Þá varð hann að víkja og golfarar fengu land til æfinga þar sem flugvöllurinn er nú. Upp úr 1960 dvínaði áhuginn á golfinu og það var ekki fyrr en Strandarvöllur kom til sögunnar 1972 að hann fór að lifna aftur. Einar Kristinsson var formaður frá 1970-1977 og plægði akurinn.
Hermann Magnússon, símstöðvarstjóri á Hvolsvelli, tók við formennskunni 1977. Hann var mikill golfáhugamaður og eldhugi, dreif félagsstarfið í gang aftur og hleypti nýju lífi í golfklúbbinn. Sama ár fékk klúbburinn inngöngu í Golfsamband Íslands. Hermann taldi feng í því að nota gamla nafnið, Golfklúbb Hellu; það væri betra til framtíðar að halda sig við gömlu kenntitöluna, eins og einhver orðaði það. Í framhaldi var R-inu bætt við skammstöfunina og nafninu breytt í Golfklúbbur Hellu Rangárvöllum. Þar með voru golfarar í Rangárþingi ytra og eystra sameinaðir, ef svo má segja.
Árið 1986 tók Svavar Friðleifsson við formennskunni af Hermanni og Guðmundur Magnússon var svo formaður frá 1997-2000, en þá tók Óskar Pálsson við keflinu og heldur á því ennþá.
Gullaldartímabilið
Í formannstíð Hermanns hófst gullaldartímabil GHR, ef svo má að orði komast, og grunnurinn lagður að golfvellinum og félagsaðstöðunni eins og hún er í dag, þótt veigamikil stökk hafi verið tekin á þeirri vegferð og margir lagt hönd á plóg. Það var stór ákvörðun að stækka völlinn úr 9 holum í 18, en það var sannarlega gæfuspor. Strandarvöllur, í þeirri mynd sem hann er í dag, var tekinn formlega í notkun á Jónsmessu 1986, en þá voru að honum meðtöldum aðeins fimm 18 holu vellir á landinu.
Til gamans má geta þess að fyrstu teikninguna að 18 holu vellinum gerði breskur golfáhugamaður sem dvaldi hér á landi um skeið og kenndi meðal annars á Strandarvelli. Landfræðilegar aðstæður urðu þó til þess að ekki var farið nákvæmlega eftir teikningunni, heldur var landið látið ráða lögun hans meira. Fyrir vikið er völlurinn það sem kallað er LINKS völlur á golfmáli. Strandarvöllur er afar fagurt mannvirki og skjólbelti úr fjölmörgum tegundum trjáa setja svip á svæðið. Allt í kring standa vörð fornvinir Rangæinga: Eyjafjallajökull, Hekla og Tindfjöll svo einhverjir séu nefndir, og í suðri Vestmannaeyjar, marandi í hafinu bláa. Í góðu veðri er vandfundið fegurra útsýni.
Námskeið fyrir unglinga
Félagar í GHR eru nú um 130. Eitt af meginmarkmiðum blúbbsins er að fjölga iðkendum, og þar með klúbbfélögum. Undanfarin sumur hefur verið boðið upp á frí námskeið fyrir unglinga, sem stýrt er af golfkennara með íþróttakennararéttindi. Námskeiðið er tvisvar í viku og tímarnir eru auglýstir í Búkollu og á Fésbókarsíðunni GHR unglingastarf. Hægt er að fá lánaðar kylfur og æfingarnar fara fram á sérstöku æfingasvæði og á litla 6 holu vellinum.
Forgengileg orka
Framtíðin er sannarlega björt hjá golfáhugafólki í Rangárþingi, þökk sé þeim sem hafa lagt hönd á plóginn í að byggja upp einn besta og fallegasta golfvöll landsins, Strandarvöll. En heyra má á Óskari að komið sé að kaflaskiptum.
„Það er búið að vera bæði gefandi og skemmtilegt að taka þátt í þessari uppbyggingu. Ég er hins vegar búinn að vera formaður og í stjórn allt of lengi. Það er ekki hollt fyrir neinn félagsskap að hafa sama fólkið í brúnni í svona langan tíma. Maður hefur heldur ekki ótakmarkaða orku. Nú hefði ég alveg viljað fara að einbeita mér bara að golfinu sem spilari, það er kominn tími til að aðrir taki við stýrinu,“ segir Óskar Pálsson formaður GHR að lokum.
Fleiri myndir og umfjallanir má nálgast í fréttabréfi sveitarfélagsins.