Árið 2020 hefur verið viðburðarríkt á Hjúkrunarheimilinu Lundi og margt ólíkt öðrum árum. Árið byrjaði vel með sameiginlegum nýársfagnaði með Kirkjuhvoli og var farið með rútu á Hvolsvöll þar sem boðið var uppá pizzu, rauðvín og sherry. Þetta heppnaðist frábærlega en hljómsveitin Vinir Jenna hélt uppi fjöri fram á kvöld. Stefnt var á að hafa haustfagnað á Lundi með svipuðu sniði en því miður þurfti að fresta honum vegna aðstæðna.
Í kjölfar heimsfaraldursins Covid 19 breyttist starfsemi Lundar verulega með tilheyrandi sóttvarnaraðgerðum. Á reglulegum fundum með almannavörnum fengu hjúkrunarheimili á landinu leiðbeiningar og utanumhald sem mikilvægt hefur verið að vinna eftir. Einn viðkvæmasti hópurinn eru íbúar hjúkrunarheimila og hann þarf að vernda með öllum ráðum. Heimsóknartakmarkanir og heimsóknarbann er það sem einkenndi mestan hluta ársins og má þakka tækninni að íbúar gátu þá haft samskipti við sína nánustu í gegnum netið.
Á þessum erfiðu tímum höfum við fengið mikið af gjöfum sem hafa létt íbúum lífið en í upphafi árs færði kvenfélagið Unnur okkur handklæði og þvottapoka. Kvenfélagið Sigurvon í Þykkvabæ ásamt kvenfélaginu Unni gáfu okkur súrefnisvél. Lionsklúbburinn Skyggnir kom einnig færandi hendi með súrefnisvél en þörf fyrir slíkar vélar er mikil þegar fólk þarf súrefni. Íbúar í þorpinu komu færandi hendi með páskaegg fyrir alla íbúa og sherry. Kvenfélagið Eining Holtum kom og færði Lundi tvær Lenovo spjaldtölvur. Kvenfélag Ásahrepps gaf okkur 500.000 krónur en upphæðin var nýtt til að kaupa 2 Volker hjúkrunarrúm. Við viljum nota tækifærið og þakka kærlega fyrir gjafir og hlýhug á árinu.
Það var töluvert um uppákomur utandyra í vor og sumar og má þá nefna Sönghópinn Lóurnar úr Reykjavík sem kom 1. maí. Börn úr grunnskólanum á Hellu komu og sungu, stórhljómsveitin vinir Jenna og kvennakórinn Ljósbrá héldu tónleika á pallinum. Tvær útiguðsþjónustur voru m.a. haldnar og allt þetta heppnaðist einstaklega vel. Við erum afar þakklát öllum þeim sem glatt hafa hjörtu íbúa Lundar og aðstandendum og velunnurum sem sýnt hafa skilning og hlýju á þessum tímum. Það er ómetanlegt að finna fyrir þeim samhug sem ríkir í okkar samfélagi.
Lundur hefur unnið í anda Eden hugmyndafræðar í mörg ár en á nýju ári er stefnan tekin á að vinna að formlegri vottun sem Eden heimili. Til að fá formlega vottun þá þarf markvissa fræðslu og innleiðing tekur um 2 ár. Eden hugmyndafræðin gengur fyrst og fremst út á að auka lífsgæði og vellíðan íbúa sem samræmist vel markmiðum Lundar að bæta lífi við árin og að að styðja við bak einstaklinga svo þeir meigi viðhalda sjálfstæði, virkni, lífsgleði og reisn til æviloka.
Við erum bjartsýn á að nýtt ár gefi okkur öllum gleði og góðar stundir.
Kærleikskveðja frá öllum á Lundi
Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir
Fleiri myndir má nálgast á Facebook síðu Rangárþings ytra.