Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum sem ekið hefur yfir brúnna að heldur líflegra er orðið yfir hellunum á Ægissíðu. Þar hefur átt sér stað töluverð uppbygging sem hófst árið 2016 og hefur nú frá byrjun árs verið tekið á móti gestum með leiðsögn í Hellana.
Hverjir standa að Hellunum við Hellu ?
Það erum við fjölskyldan á Ægissíðu 4 sem stöndum að þessu, Þórhallur Ægir Þorgilsson, systkinin Baldur og Ólöf Þórhallsbörn ásamt dóttur Baldurs, Álfrúnu Perlu og mér Árna Frey Magnússyni kærastanum hennar. Við höfum notið góðs stuðnings fjölda heimamanna við þetta verk.
Ef við lítum framhjá því ástandi sem nú ríkir, hvernig hafa viðtökurnar verið ?
Viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Við leggjum áherslu á að segja sögu hellana. Við segjum frá vísbendingum og munnmælasögum um byggð írsks fólks í hellunum fyrir landnám norrænna manna og hvernig forfeður okkar hafa nýtt hellana um aldir. Fólk hefur tekið þessum leiðsögnum afar vel. Við fórum að stað með að hafa opið einu sinni eða tvisvar um hverja helgi en í sumar urðum við að hafa opið alla daga vikunnar og fara nokkrar ferðir á dag til að anna eftirspurn. Það var sérlega ánægjulegt að sýna Íslendingum þennan ævintýraheim og segja þeim sögurnar sem gengið hafa mann fram af manni í Rangárþingi öldum saman.
Hvað er framundan ?
Það er margt spennandi framundan. Við erum að leggja rafmagn í hellana fjóra sem við höfum opnað fyrir leiðsagnir. Við munum koma upp betri lýsingu í hellunum sjálfum sem og í nánasta umhverfi þeirra. Einnig erum við að endurbæta forskála og strompa hellanna og leggja göngustíga., Næsta sumar verður þannig allt aðgengi að hellunum betra. Á næstu árum stefnum við að því að endurbæta fleiri hella og gera þá aðgengilega. Við erum einnig að leita heimilda um hellana og siglingar Íra til Íslands en þónokkuð er fjallað um þær í írskum fornsögum. Draumurinn er einnig að geta ráðið í allar veggjaristurnar sem finna má í hellunum. Þær eru stórmerkilegar en engum hefur enn tekist að ráða í þær.
Fleiri myndir má nálgast á