Heimgreiðslur hækka um áramót

Heimgreiðslur til foreldra ungra barna sem eru ekki í leikskóla voru fyrst teknar upp árið 2016 í Rangárþingi ytra. Var þetta bæði gert til að auðvelda foreldrum að brúa bilið þegar ekki var hægt að taka við börnum í vistun við 1 árs aldur og til að auðvelda foreldrum að vera lengur heima með börnin að loknu fæðingarorlofi.

Heimgreiðslur eru í boði fyrir börn frá 12–24 mánaða sem eru ekki í leikskóla en reglurnar má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Byggðarráð hefur nú samþykkt hækkun á heimgreiðslum upp í 125.000 kr. á mánuði en sú ákvörðun kemur í kjölfar tillagna starfshóps um þróun leikskólastarfs og nýrrar gjaldskrár Odda bs. sem tekur gildi 1. janúar 2025. Hækkun heimgreiðslna tekur einnig gildi 1. janúar 2025.

Auk hækkunar verða í boði hlutagreiðslur fyrir börn sem ekki eru í fullri vistun á leikskóla. Þannig verður heimgreiðsla 100% fyrir barn sem er ekki í leikskóla, 50% fyrir barn sem er í 20 klst. vistun á viku og 25% fyrir barn sem er í 21–30 klst. vistun á viku. Heimgreiðsla fellur niður þegar vistun fer yfir 30 klst. á viku.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?