Samgöngu- og fjarskiptanefnd stóð fyrir opnum fundi um samgöngumál í Rangárþingi ytra á mánudagskvöld. Virkileg góð mæting var. Aðal efni fundarins var kynning Ólafs Kr. Guðmundssonar á vegaúttekt sem hann framkvæmdi í Rangárvallasýslu nýverið. Hvað snertir þjóðveg 1 komum við nokkuð vel út í skýrslunni en umfang malarvega er hér gríðarlegt, þeir oft illa farnir og augljóst að þar þarf að fara í virkilega mikið átak og úrbóta þörf sem fyrst! Samgöngunefnd sveitarfélagsins hefur fjallað um tillögu að fimm ára samgönguáætlun Alþingis og í framhaldinu hefur sveitarstjórn samþykkt ályktun um áætlunina. Fram kom á fundinum að ekkert af þeim um 46 milljörðum sem fara eiga í stofnvegi landsins á næstu fimm árum fari í vegi í Rangárvallasýslu. Sveitarfélagið leggur áherslu á að bundið slitlag verði lagt á helstu tengivegi í sveitarfélaginu á allra næstu árum.
Annar fundur um samgöngumál verður haldin n.k. mánudagskvöld í safnaðarheimilinu á Hellu kl. 19:30 en þar munu mæta Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra og Vilhjálmur Árnason alþingismaður og ræða samgöngumál. Þeir munu flytja erindi um samgöngumál undir yfirskriftinni „það er til önnur leið“. Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að mæta.