Fréttabréf Rangárþings ytra er mánaðarleg samantekt helstu frétta og viðburða sem snerta sveitarfélagið. Ef þú ert með ábendingar um efni sem þér finnst að eigi heima í fréttabréfinu skaltu endilega senda upplýsingar á osp@ry.is.
Veðurannáll
Veðrið í janúar var nokkuð umhleypingasamt eins og vera vill á þessum árstíma. Mikil hálka hefur verið á vegum, götum og gangstéttum sem hefur gert ýmsum lífið leitt. Þorrinn er nú tekinn við og gera má ráð fyrir að vetur konungur ríki enn um hríð en sól fer hækkandi sem er alltaf gleðiefni.
Samborgari Rangárþings ytra heiðraður
Kaffisamsæti eldri borgara var haldið að Laugalandi í Holtum 11. janúar. Þangað mættu um 70 manns til að spjalla, njóta tónlistar og veitinga og hitta kjörna fulltrúa. Hefð er orðin að heiðra samborgara Rangárþings ytra á þessari samkomu en kallað er eftir tilnefningum ár hvert. Pálína S. Kristinsdóttir hlaut útnefninguna að þessu sinni fyrir ómetanlega þjónustu og velvild við sveitunga sína um áratugaskeið. Smellið hér til að lesa nánar um málið.
Fréttir úr stjórnsýslunni
Ný nefnd sett á laggirnar
Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 8. janúar stofnun nýrrar framkvæmda- og eignanefndar. Nefndin mun fara með málefni viðhalds- og framkvæmda, fráveitu og málefni Rangárljósa. Hlutverk hennar er að hafa umsjón með viðhaldi og framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins og vera ráðgefandi varðandi forgangsröðun viðkomandi verkefna. Nánar má lesa um málið með því að smella hér.
Breytingar á reglum um úthlutanir lóða
Nýjar reglur um úthlutanir lóða kveða á um að úthlutanir á lóðum þar sem fyrir liggur samþykkt aðal- og deiliskipulag færist til skipulags- og umferðarnefndar. Einnig hefur verið ákveðið að fjölga fundum skipulags- og umferðarnefndar vegna mikils fjölda mála sem berast á borð hennar. Er þetta gert til að hraða og auðvelda afgreiðslu mála.
Álagningarseðlar fasteignagjalda hafa verið birtir
Fasteignagjöldin eru komin í pósthólfið undir „Mínar síður“ á island.is. Fyrsti gjalddagi af 8 er 1. febrúar og álagningarseðlar verða ekki sendir út á pappír. Nánari upplýsingar hér.
Tillögur um götuheiti í nýju hverfi lagðar fram
Bjargshverfið verður nýtt hverfi á Hellu, vestan Rangár. Síðastliðið haust var kallað eftir hugmyndum íbúa að götuheitum í hverfinu og um 50 tillögur bárust. Skipulags- og umferðarnefnd vann úr tillögunum og hefur lagt fram hugmyndir sínar að útfærslu sem nánar má lesa um hér.
Heilbrigðismál
Læknaskortur í Rangárvallasýslu
Síðustu misseri hefur læknaskortur verið vandamál í sýslunni og sú staða reglulega komið upp að enginn læknir sé á vakt á stóru svæði á Suðurlandi. Sveitarfélögin í sýslunni hafa verið samtaka um að þrýsta á úrbætur og sendu frá sér sameiginlega tilkynningu 10. janúar með kröfu um úrbætur og sameiginlega ályktun um málið 24. janúar. Sveitarfélögin hafa fundað með Heilbrigðisstofnun Suðurlands og unnið er að því að tryggja langtímalausn. Grunnlæknisþjónusta hefur verið tryggð út febrúar í það minnsta.
Íþróttir og heilsuefling
Íþróttaviðurkenningar Rangárþings ytra
Íþróttaviðurkenningar sveitarfélagsins voru veittar við hátíðlega athöfn 11. janúar. Hestafólkið Hanna Rún Ingibergsdóttir og Árni Björn Pálsson hlutu titlana íþróttakona og -karl ársins 2024 auk þess sem fjöldi viðurkenninga var veittur fyrir ýmis íþróttaafrek og vel unnin störf. Nánar má lesa um málið í þessari frétt.
Öflugt íþróttastarf rúllar af stað á nýju ári
Fjölbreytt íþróttastarf er í boði í sveitarfélaginu og í upphafi árs er um að gera að kynna sér það.
- Ungmennafélagið Hekla heldur úti öflugu starfi sem hægt er að kynna sér á Facebook-síðu félagsins.
- Pílunefnd umf. Heklu hefur komið upp öflugu pílustarfi í Rangárþingi ytra, æfir tvisvar í viku og heldur reglulega mót. Nánar á Facebook-síðu nefndarinnar.
- Íþróttafélagið Garpur býður upp á fjölbreytta stundaskrá sem hægt er að kynna sér á Facebook-síðu félagsins.
- Hestamannafélagið Geysir býður upp á ýmis námskeið og heldur úti öflugu starfi. Á Facebook-síðu og heimasíðu félagsins má kynna sér starfsemi félagsins.
- Skotíþróttafélagið Skyttur hefur um árabil haldið úti öflugu skotfimistarfi fyrir fólk á öllum aldri. Upplýsingar um þeirra starf er að finna á Facebook-síðu og heimasíðu félagsins.
- KFR sér um fótboltann á svæðinu og býður upp á fjölbreytt og öflugt starf að vanda. Á Facebook-síðu félagsins má nálgast frekari upplýsingar.
- Ungmennafélagið Framtíðin býður upp á opnar æfingar einu sinni í viku í íþróttahúsinu í Þykkvabæ fyrir krakka á öllum aldri. Þangað mæta foreldrar og börn til að hreyfa sig og njóta samverunnar. Kostar ekkert og öll velkomin.
- Leikskólafjör í íþróttahúsinu á Hellu er alla laugardaga frá kl. 10–11:30. Þangað eru öll leikskólabörn velkomin í fylgd fullorðinna. Settar eru upp þrautabrautir en tímarnir eru frjálsir að öðru leyti. Kostar ekkert.
- Heilsuefling 60+. Drífa Nikulásdóttir einkaþjálfari stýrir æfingum fyrir 60 ára og eldri. Æft er kl. 10 á mánudögum og fimmtudögum í íþróttahúsinu á Hellu og á þriðjudögum og föstudögum í Hvolnum á Hvolsvelli. Þátttaka er gjaldfrjáls og íbúar í Rangárþingi ytra mega mæta á Hvolsvelli og öfugt. Sveitarfélagið kostar æfingarnar undir merkjum heilsueflandi samfélags.
- Morgunpúl og mömmuleikfimi með Drífu Nikulásdóttur. Drífa býður einnig upp á hreystinámskeið á milli kl. 6 og 7 og á milli kl. 7 og 8 í íþróttahúsinu á Hellu mánudags- og fimmtudagsmorgna. Einnig er hún með mömmuleikfimi á mánudögum og fimmtudögum kl. 11:20 í íþróttahúsinu á Hellu. Best er að hafa samband við Drífu á Facebook eða í síma 690-3433 til að fá upplýsinga um verð og skráningu.
- GHR rekur golfvöllinn á Strönd. Meira um þeirra starf á heimasíðu og Facebook-síðu félagsins.
- Yoga og Yoga Nidra með Steinunni Kristínu í safnaðarheimilinu á Hellu. Nánar á Facebook-síðunni hennar.
- Yoga með Margréti Ýrr í safnaðarheimilinu á Hellu. Nánar á Facebook-síðu námskeiðsins.
- Ferðafélag Rangæinga stendur fyrir reglulegum gönguferðum allt árið, bæði styttri og lengri vegalengdir. Nánar á heimasíðu og Facebook-síðu félagsins.
Lífshlaupið hefst 5. febrúar
Þetta árlega heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands höfðar til allra aldurshópa og er tilvalin leið til að hvetja fólk til að hreyfa sig þrátt fyrir válynd veður. Við hvetjum sem flesta til að taka þátt og skrá sinn skóla, vinnustað eða hreystihóp til leiks á https://www.lifshlaupid.is/.
Starfsfólk skrifstofu Rangárþings ytra og Íþróttamiðstöðvarinnar hafa þegar skráð sig til leiks og skorum við á aðrar stofnanir og fyrirtæki að gera hið sama.
Skólafréttir
Dansvika í Helluskóla
Árleg dansvika Helluskóla var haldin í þriðju vikunni í janúar. Skólinn fékk danskennarann Silju Þorsteinsdóttur til liðs við sig og kenndi hún öllum bekkjum skólans dans í eina kennslustund alla daga vikunnar. Vikan endaði með glæsilegri danssýningu 17. janúar þar sem allir bekkir skólans komu fram með dansatriði. Mælum með að skoða myndskeiðin frá sýningunni með því að smella hér.
Mælum einnig með því fyrir öll sem eru áhugasöm um skólann að fylgjast með heimasíðu hans en þau eru mjög dugleg að birta myndir og fréttir frá starfi skólans. Hér er tengill á heimasíðuna.
Nýbygging Helluskóla
Annar áfangi nýbyggingar Helluskóla gengur að mestu samkvæmt áætlun. Byggingin er risin að fullu og nú stendur yfir vinna við innanrými skólans.
Svona lítur byggingin út núna
Þorrablót Laugalandsskóla
Laugalandsskóli hélt sitt árlega þorrablót á bóndadaginn. Þar er ekki bara hefð að borða þorramat heldur er keppt í kveðskap og verðlaun veitt á blótinu. Við mælum með að lesa fréttina á heimasíðu skólans og skoða allar vísurnar sem urðu til. Hér er tengill á hana
Breyting á reglum um námsstyrki
Stjórn Odda bs. samþykkti á síðasta fundi sínum breyttar reglur um námsstyrki starfsfólks. Markmiðið er að hækka menntunarstig starfsfólks í grunn- og leikskólum Odda bs. og fjölga fagmenntuðu starfsfólki. Reglurnar fela meðal annars í sér hvata til náms í formi styrkja og námsleyfis. Fleiri námsleiðir eru nú styrkhæfar en áður, t.d. getur starfsfólk leikskóla sótt um styrk vegna náms í þroska- og iðjuþjálfun auk náms í leikskólakennarafræðum og leikskólaliðanámi.
Héðan og þaðan
Landsvirkjun hefur útboð á gistiþjónustu
Landsvirkjun þarf að útvega starfsfólki sínu og verktökum gistingu á næstu misserum og árum, í tengslum við miklar framkvæmdir á starfssvæði fyrirtækisins við Búrfell.
Æskilegt er að gistingin sé ekki í meira en 1–1 ½ klst. akstursfjarlægð frá verkstað. Viðmiðunarsvæðið nær því til Rangárþings ytra í heild sinni og eru stórir sem smáir aðilar á svæðinu hvattir til að kynna sér málið. Smellið hér til að lesa meira um málið.
Kórastarf vinsælt meðal Rangæinga
Langar þig að syngja í kór? Við tókum saman smá upplýsingar um kórastarf á svæðinu og komumst að því að kórarnir eru hvorki meira né minna en sjö, bara í okkar sveitarfélagi. Sumir þeirra starfa þó í allri sýslunni. Smelltu hér til að lesa meira um málið.
Næst á döfinni
Fram undan er stysti mánuður ársins, febrúar. Margt er á döfinni en þorrablótin eru mörgum eflaust ofarlega í huga, enda tilhlökkunarefni ár hvert.
Þrjú blót eru haldin í Rangárþingi ytra, eitt þeirra er þegar búið en Landmenn blótuðu að Brúarlundi 25. janúar og fara fregnir af miklu stuði og almennri gleði þaðan.
- 15. febrúar verður svo þorrablót Rangvellinga í íþróttahúsinu á Hellu – miðasalan verður 8. febrúar í tengibyggingu íþróttahússins á milli kl. 10 og 13. Nánar hér.
- 22. febrúar er komið að Holtablóti að Laugalandi – miðasala verður 15. febrúar að Laugalandi frá kl. 11–15. Nánar hér.
Hér var stiklað á stóru og auðvitað er margt fleira í gangi á svæðinu. Við mælum með að fylgjast með fréttum og tilkynningum á miðlum sveitarfélagsins.
Heimasíðunni: ry.is
Fylgið okkur líka endilega á Facebook og Instagram
Markaðs- og kynningarfulltrúi tekur glöð við fréttaskotum, tilkynningum og hverju sem íbúar vilja koma á framfæri í gegnum netfangið osp@ry.is. Við viljum flytja fréttir af stóru sem smáu sem á sér stað innan sveitarfélagsins.