
Fréttabréf Rangárþings ytra er mánaðarleg samantekt helstu frétta og viðburða sem snerta sveitarfélagið. Ef þú ert með ábendingar um efni sem þér finnst að eigi heima í fréttabréfinu skaltu endilega senda upplýsingar á osp@ry.is.
Veðurannáll
Segja má að febrúar hafi hafist með hvelli en sjaldséð rauð viðvörun var gefin út þann 6. febrúar. Illviðri gekk yfir með miklum vindhraða og nokkuð foktjón varð á svæðinu, einkum í efri byggðum. Á bænum Næfurholti á Rangárvöllum sprungu t.a.m. rúður og þakplötur fuku af húsum. Við Haukadal losnuðu þakplötur af flugskýli og Flugbjörgunarsveitin á Hellu hafði í nógu að snúast í útköllum þennan sólarhringinn. Skólastarf raskaðist og skólar ýmist lokuðu eða voru með skerta starfsemi á meðan versta veðrið gekk yfir. Mildi má kalla að ekki var kalt þegar verðið skall á enda næsta víst að það hefði valdið enn meiri usla ef snjókoma hefði fylgt. Að öðru leyti hefur veðrið í febrúar verið með eindæmum milt, hlýindi hafa ríkt með hægviðri að mestu og ef við vissum ekki betur hefði mátt halda að vorið væri mætt. Meira að segja gróðurinn lét plata sig og brum tóku að birtast á runnum og trjám. Undir lok mánaðarins kólnaði þó lítillega enda vitum við vel að vorið kemur ekki í febrúar á Íslandi.
Þorrinn að baki og snemmbúinn vorboði
Síðasta dag janúarmánaðar bárust þau tíðindi að sauðburður væri hafinn! Það er nú kannski orðum aukið en fyrsta lamb ársins er að minnsta kosti fætt í sveitarfélaginu eins og lesa má um hér.
Við höfum líka frétt af kiðlingum í Þykkvabænum sem fæddust víst fyrir jól.
Þorrablót sveitarfélagsins eru afstaðin þetta árið, húsfyllir var á öllum stöðum og ekki annað frést en að skemmtanir hafi farið fallega fram.
Spennandi störf í boði
Ýmis störf eru nú auglýst innan sveitarfélagsins.
- Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. leitar að framkvæmdastjóra
- Leitað er að starfsfólki í sumarstöf í áhaldahúsi
- Sundlaugarvörður óskast í sundlaugarnar á Hellu og Laugalandi
- GHR óskar eftir rekstraraðila veitingaþjónustu á Strandarvelli
- Land og skógur leitar að starfskrafti
- HSU auglýsir starf yfirlæknis í Rangárvallasýslu
- Verkalýðsfélag Suðurlands auglýsir starf
- Arion banki leitar að sumarstarfsfólki
Nánari upplýsingar um laus störf má nálgast hér.
Hellirinn valdi fulltrúa á USSS
Félagsmiðstöðin Hellirinn hélt sína árlegu söngkeppni 12. febrúar. Manúela Maggý, Unnur Edda, Ómar Azfar og Mikael Máni stóðu uppi sem sigurvegarar kvöldsins og munu þau keppa í undankeppni Samfés á Suðurlandi þann 14. mars. Nánar má lesa um keppnina hér.
F.v. Unnur Edda Pálsdóttir, Manúela Maggý Morthens, Ómar Azfar Valgerðarson Chattha og Mikael Máni Leifsson
Skólafréttir
Leikskólarnir héldu upp á dag leikskólans sem var 6. febrúar.
- Leikskólinn á Laugalandi sem leggur mikla áherslu á læsishvetjandi umhverfi birti þessa fróðlegu grein sem við hvetjum ykkur til að lesa.
- Krakkarnir á Heklukoti bjuggu til skemmtilegt listaverk sem er nú til sýnis í Miðjunni á Hellu og hvetjum við ykkur til að kíkja á það.
Listaverkin í Miðjunni
Tónlistarskóli Rangæinga bauð á opið hús 7. febrúar. Þar mátti kynnast fjölbreyttu starfi skólans og nánar má lesa um það hér.
Sameiginleg listahátíð grunnskólanna í Rangárvallasýslu var haldin 12. febrúar á Hellu. Á hátíðinni koma þrír elstu bekkir skólanna saman og vinna í listasmiðjum í blönduðum hópum. Nánar má lesa um málið hér og hér.
Fréttir úr stjórnsýslunni
Ungmennaráð hefur nú formlega tekið til starfa. Það verður spennandi að fylgjast með öllu sem þau hafa fram að færa á næstu misserum. Við hlökkum til að hlusta á raddir ungmenna.
Fjölmenningarráð verður sett á laggirnar á vordögum en óskað var eftir framboðum og tillögum. Enn er hægt að tilnefna aðal- og varamenn svo ef þig langar að taka þátt eða þekkir einhvern sem gæti haft áhuga skaltu skoða þetta.
Eldvarnareftirlit er í höndum Brunavarna Rangárvallasýslu sem hafa gefið út eftirlitsáætlun fyrir 2025. Hana má nálgast hér.
Útboð málningarvinnu í nýbyggingu Helluskóla stendur yfir og lokar 11. mars. Áhugasöm geta kynnt sér málið hér.
Allar fundargerðir nefnda og ráða sveitarfélagsins má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins með því að smella hér. Þar má fylgjast nánar með öllu sem fram fer innan stjórnsýslunnar.
Hvað er framundan?
Við minnum sérstaklega á viðburðasíðuna okkar allra, suðurlíf.is! Þar eru upplýsingar um allt sem tengist íþróttum, tómstundum, viðburðum og menningu á svæðinu. Ef þú ert að halda viðburð geturðu skráð hann þar eða látið okkur vita og við sett hann inn. Hafið endilega samband á osp@ry.is varðandi spurningar um suðurlíf.is.
Bolludagur, sprengidagur og öskudagur eru fyrstu vikuna í mars og væntanlega verða þessir dagar haldnir hátíðlegir að vanda. Munum að hafa augun opin fyrir uppáklæddum skólabörnum í sykursjokki á öskudaginn, 5. mars. Keyrum varlega og tökum vel á móti þeim.
Meðal viðburða á döfinni eru:
- Hestamannafélagið Geysir heldur mót í Rangárhöllinni 1. mars kl. 11
- Alzheimersamtökin verða með fræðslu í Safnaðarheimilinu á Hellu 3. mars kl. 20:00
- Ferðafélag Rangæinga heldur aðalfund 4. mars í Hvolnum á Hvolsvelli kl. 18:00
- Kvenfélagið Lóa heldur félagsvistarkvöld til styrktar Brúarlundi 19. mars kl. 20:00
Hér var stiklað á stóru og auðvitað er margt fleira í gangi á svæðinu. Við mælum með að fylgjast með fréttum og tilkynningum á miðlum sveitarfélagsins.
Heimasíðunni: ry.is
Fylgið okkur líka endilega á Facebook og Instagram
Markaðs- og kynningarfulltrúi tekur glöð við fréttaskotum, tilkynningum og hverju sem íbúar vilja koma á framfæri í gegnum netfangið osp@ry.is. Við viljum flytja fréttir af stóru sem smáu sem á sér stað innan sveitarfélagsins.