Framkvæmda- og eignanefnd samþykkt í sveitarstjórn

Skipað var í nýja framkvæmda- og eignanefnd sveitarfélagsins á fundi sveitarstjórnar 8. janúar 2025.

Nefndina skipa Eggert Valur Guðmundsson formaður og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir fyrir hönd Á-lista og Ingvar Pétur Guðbjörnsson fyrir hönd D-lista. Varamenn verða Þórunn Dís Þórunnardóttir og Viðar M. Þorsteinsson fyrir hönd Á-lista og Eydís Indriðadóttir fyrir hönd D-lista.

Nefndin mun taka til starfa þegar breytingar á samþykkt um stjórn sveitarfélagsins birtast í B-deild Stjórnartíðinda.

Nefndin mun fara með málefni viðhalds- og framkvæmda, fráveitu og málefni Rangárljósa. Hlutverk hennar er að hafa umsjón með viðhaldi og framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins og vera ráðgefandi varðandi forgangsröðun viðkomandi verkefna.

Viðfangsefni nefndarinnar eru:

  • að gera tillögur til sveitarstjórnar um forgangsröðun þeirra verkefna sem heyra undir nefndina.
  • að fara yfir tillögur forstöðumanns að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar.
  • að hafa umsjón með þeim framkvæmdum og fjárfestingum eigna sveitarfélagsins sem hafa verið samþykktar í fjárhagsáætlun ársins.
  • að fara yfir þau viðhaldsmál sem eru í gangi á vegum sveitarfélagsins á hverjum tíma, þar með talið ásýndar- og umgengnismál.
  • að vera tengiliður við þau félagasamtök í sveitarfélaginu sem falla undir verksvið nefndarinnar.
  • að hafa umsjón með framkvæmdum sem snerta umferðaröryggismál í sveitarfélaginu.
  • að styðja við og fara með umsjón málefna vinnuskólans eftir atvikum.
  • að fara með umsjón á rekstri og verkefnum fráveitu sveitafélagsins.
  • að fara með umsjón á rekstri og verkefnum Rangárljósa.
  • að fylgjast með og vera tengliður vegna annarra veitna sem snerta innviði sveitarfélagsins eins og vatnsveitu og hitaveitu.
  • að vinna að öðrum þeim verkefnum sem sveitarstjórn felur nefndinni á hverjum tíma.

Erindisbréf nefndarinnar má lesa í heild sinni hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?