Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri við Ægissíðufoss
Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri við Ægissíðufoss

Fjárhagsáætlun

Á sveitarstjórnarfundi nú á miðvikudaginn 13. desember fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Áætlaðar heildartekjur samstæðu Rangárþings ytra árið 2018 nema alls 1.864 mkr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 1.612 mkr, þar af eru reiknaðar afskriftir um 103 mkr, og framlegðarhlutfallið því 19% sem telst vel ásættanlegt. Fjármagnsgjöld eru áætluð um 93 mkr og rekstrarniðurstaðan því áætluð jákvæð um 159 mkr og veltufé frá rekstri um 305 mkr. Gert er ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu í samstæðunni að upphæð um 302 mkr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2018 alls 1.610 m. kr og eigið fé 1.901 mkr en þess má geta að eiginfjárhlutfall hefur nær tvöfaldast á stuttum tíma. Þá er gert ráð fyrir veltufjárhlutfallið hækki í 1,18 sem merkir að sveitarfélagið ætti að vera í ágætu greiðslujafnvægi næsta árið. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal s.k. þriggja ára rekstrarjöfnuður sveitarfélaga vera jákvæður og skuldaviðmið þeirra undir 150%. Þarna eigum við gott borð fyrir báru því þriggja ára rekstrarjöfnuður sveitarfélagsins er áætlaður jákvæður um tæpar 500 mkr og skuldaviðmiðið fer niður í 83% á árinu 2018. Fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða í sveitarstjórninni.

Framkvæmdir

Sem fyrr segir er gert ráð fyrir verulegum framkvæmdum á næsta ári og ber þar hæst fjárfesting í uppbyggingu Vatnsveitunnar sem er byggðasamlag í eigu Rangárþings ytra og Ásahrepps. Þar er komin mikil þörf til að endurnýja stofnlagnir og miðlunarmannvirki til að tryggja íbúum og fyrirtækjum öruggt og gott neysluvatn til framtíðar. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki allt að 10 ár en á næstu 3 árum verði þó mestur þungi í framkvæmdum og er unnið út frá s.k. Lækjarbotnaveitu sem lykilvatnstökustað með miðlunartank í Hjallanesi og stofnlögnum að Bjálmholti. Í framhaldinu verði svo ráðist í endurnýjun og styrkingu stofnlagna um þjónustusvæði veitunnar. Þetta verður spennandi verkefni sem undirbúa þarf af kostgæfni til að tryggja hagkvæmni og öryggi til framtíðar.

Lundur

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lundur er stolt okkar heimamanna og nýja viðbyggingin sem vígð var fyrr á þessu ári hefur þegar sannað gildi sitt sem griðarstaður og geysilega mikilvæg stækkun á heimilinu. Á stjórnarfundi hjá Lundi í gær kom fram að heildarkostnaður viðbyggingar liggur fyrir og ljóst er að byggingarkostnaður er um 279 mkr og hefur hann verið fjármagnaður að fullu með framlögum  frá ríki, framkvæmdasjóði aldraðra og sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Ásahreppi. Kostnaðurinn endar um 17% yfir kostnaðaráætlun frá árinu 2014. Það má því segja að stjórn Lundar og framkvæmdastjóra hafi tekist að halda vel utanum framkvæmdina þrátt fyrir mikla þenslutíma í byggingariðnaði með fáum tilboðum í verk og hækkandi verðum. Ástæða er til að óska stjórninni til hamingju og okkur öllum enn og aftur með glæsilega byggingu. Í framlög ríkisins til verksins vantaði hins vegar fjármuni til að fjárfesta í nauðsynlegum búnaði til hinnar nýju deildar og er það sanngirnismál að leita eftir sambærilegri þátttöku ríkisins í þeim þætti og í viðbyggingunni sjálfri.

Gjaldskrár

Samhliða frágangi á fjárhagsáætlunum fyrir hin ýmsu verkefni sveitarfélagsins og samstarfsverkefni í héraði þarf að fara yfir gjaldskrár fyrir margvíslega þjónustu sem þessum verkefnum tengist. Í flestum tilfellum er ekki um aðrar breytingar að ræða en mögulega uppreiknun miðað við vísitölur. Ein breyting skar sig þó úr að þessu sinn en hjá byggðasamlaginu Odda bs sem rekur grunn- og leikskólana á Hellu og Laugalandi var ákveðið að lækka vistunargjöld í leikskóla og skóladagheimili. Voru vistunargjöld í leikskólunum lækkuð sem nemur 1/3 frá síðasta ári og vistunargjöld á skóladagheimili lækkuð sem nemur fjórðungi frá síðasta ári. Vistunargjöldin í leikskóla hafa því lækkað um 50% frá árinu 2014 og er mánaðargjaldið fyrir 8 tíma vistun frá næstu áramótum 13.384 kr sem er mjög hóflegt gjald í samanburði á landsvísu. Hugsunin er auðvitað sú að létta undir með barnafjölskyldum en þar er oft í mörg horn að líta með aurana.

Rangárljós

Í vikunni var lögð fram verklokaskýrsla um lagningu ljósleiðara um hinar dreifðu byggðir í Rangárþingi ytra. Fram kemur í verklokaskýrslunni að tengistaðir urðu alls 413 og kostnaður við verkefnið reyndist vera 348 mkr eða 92% af áætlun. Fyrsta hænufetið í undirbúningi verkefnisins var tekið á gamlársdag 2014 eða fyrir 3 árum síðan. Að mörgu var að hyggja í upphafi, ekki síst hvernig mögulega mætti fjármagna verkefnið en okkar gæfa var fólgin í því að hefja undirbúning snemma þó ekki væru allir hnútar hnýttir. Þegar sást orðið til lands með skipulag og fjármögnun og tekist hafði að fá framúrskarandi verktaka í málið þá tók framkvæmdin sjálf einungis 11 mánuði. Sveitarstjórn ályktaði um það á fundi sínum í vikunni að verkefnið hafi heppnast afar vel og að tekist hafi að bæta búsetuskilyrði í sveitarfélaginu svo um munar. Það er gleðilegt og ekki spillir fyrir að við eigum þessa verðmætu fjárfestingu sjálf.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?