Fjölmenn þjóðhátíðargleði í Rangárþingi ytra

80 ára lýðveldisafmæli Íslands var fagnað með viðhöfn um land allt þann 17. júní og létum við í Rangárþingi ytra ekki okkar eftir liggja í þeim efnum.

Fagnað var formlega á fjórum stöðum í sveitarfélaginu, allt fór vel fram og veðrið lék við okkur.

Á Hellu var fagnað með nokkuð hefðbundnum hætti. Gleðin hófst með því að Hestamannafélagið Geysir stóð fyrir hestafimleikasýningu á íþróttavellinum kl. 12 og að henni lokinni var boðið upp á að teyma undir börnunum. Verðandi 10. bekkur Helluskóla var með sína árlegu blöðrusölu í Miðjunni kl. 13 og skrúðgangan hélt svo af stað kl. 13:30. Stór hópur prúðbúins fólks gekk svo brosandi í átt að íþróttahúsinu . Lögreglan ók fremst og ungmenni frá Hestamannafélaginu Geysi leiddu gönguna á hestum.

Því næst tók við hátíðardagskrá í og við íþróttahúsið. Kvenfélagið Unnur bauð upp á glæsilegt kaffihlaðborð, Fjallkonan flutti ljóð, tveir hoppukastalar voru vel nýttir af börnum á öllum aldri, hreystibraut í anda Skólahreysti var öllum opin, tónlistarfólk steig á stokk og nokkrar stuttar ræður voru fluttar.

Fjallkonan í ár var Rakel Ýr Sigurðardóttir og fánaberar með henni voru þær Elísa Margrét Brynjarsdóttir og Jacqueline Kruklina. Ræðu útskriftarnema flutti Gunnar Páll Steinarsson, nýútskrifaður rafvirki og loks flutti Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarfélagsins, hátíðarræðu.

Tónlistaratriðin voru ekki af verri endanum en fyrst á svið voru þau Hafrún Ísleifsdóttir og Einar Þór Guðmundsson sem fluttu vel valin lög úr Dýrunum í Hálsaskógi og Fríða Hansen og Kristinn Ingi Austmar Guðnason lokuðu svo hátíðinni með frábærum tónlistarflutningi.

Allt fór vel fram og líklega hafa eitthvað á milli fjögur og fimm hundruð manns mætt á svæðið.

 

Í Þykkvabæ var gleðin einnig við völd. Hoppukastalinn vakti lukku, hátíðarlestin var á sínum stað, Kvenfélagið Sigurvon sá um kaffi og kökur og pylsur voru grillaðar.

 

 

Við Kambsrétt á Lýtingsstöðum var einnig fagnað á hefðbundinn hátt með árlegri Smalabúsreið. Þar mátti einnig finna hoppukastala og auðvitað var grillað ofan í mannskapinn.

 

 

Á Brúarlundi var þjóðhátíðardeginum einnig fagnað að venju.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?