Í síðustu viku stóð sveitarfélagið Rangárþing ytra fyrir atvinnumálþingi sem haldið var á Stracta Hótel Hellu. Yfirskrift málþingsins var „Hvað gerum við?“ en til þess að velta fyrir sér framtíðinni þá er nauðsynlegt að átta sig á því hvað við gerum í dag. Málþingið var virkilega vel sótt en boðið var uppá staðfund, ZOOM fjarfund og beina útsendingu á Facebook og sóttu þingið alls um 80 manns. Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri hjá SASS svaraði spurningunni „Hvað gerum við?“ með glænýjum gögnum þar sem m.a. kom fram að í Rangárþingi ytra eru 864 stöðugildi við 141 tegund starfa. Fjölbreytni starfa kom mörgum á óvart. Hér má nálgast erindi Þórðar. Sigurður H. Markússon nýsköpunarstjóri Landsvirkjunar velti upp framtíðinni varðandi sjálfbæra matvælaframleiðslu og benti á spennandi leiðir til nýsköpunar á því sviði í Rangárþingi ytra m.a. í ljósi styrkleika svæðisins í orkuframleiðslu og þekkingu í matvælaframleiðslu, hér má nálgast erindi Sigurðar. Að lokum velti Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri upp hlutverki sveitarfélagsins í atvinnusköpun og viðbrögðum gagnvart yfirstandandi iðnbyltingu, erindi Ágústar má nálgast hér. .
Að loknu málþingi var gestum staðfundar og ZOOM skipt í hópa þar sem lagt var upp með að svara þremur spurningum.
Hvernig má ýta undir nýsköpun í atvinnulífi á svæðinu ?
Ná þarf utanum hvaða aðstaða er til staðar á svæðinu í dag sem getur nýst frumkvöðlum til nýsköpunar s.s. fullbúið eldhús í íþróttahúsinu í Þykkvabæ sem gæti þjónað sem matarsmiðja. Koma þarf upp aðstöðu fyrir frumkvöðla, frumkvöðlasetri/hugvitsetri. Hægt væri að halda svokölluð Hackathon til þess að koma umræðunni af stað. Leggja þarf áherslu á hvaða tækifæri liggja á svæðinu með opnum huga. Stefnumótun á vegum sveitarfélagsins í orku, auðlinda og atvinnumálum gæti nýst vel.
Hverjir eru styrkleikar svæðisins sem virkja mætti betur til atvinnusköpunar ?
Styrkleikar svæðisins liggja í því hversu vel sveitarfélagið er staðsett sem og gríðarlega miklu magni af fersku köldu vatni sem er grundvöllurinn að öflugri matvælaframleiðslu og matvælavinnslu í héraði. Gríðarleg veðursæld – nánast alltaf gott veður. Öflugt fræðasamfélag er til staðar m.a. hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti. Draga þarf saman upplýsingar um svæðið sem geta nýst til atvinnusköpunar. Erum í alfaraleið – stutt frá höfuðborginni. Afmörkuð fagþekking er veruleg – góðir iðnaðarmenn t.d. Aðfluttir segja að þjónusta hér sé frábær t.d. heilsugæsla ofl í Miðjunni.
Eru einhver grunnatriði innan svæðisins sem þarf að efla til að atvinnulíf blómstri enn frekar ?
Skipulag svæða og lóðaframboð er grundvöllur fyrir öflugri atvinnuuppbyggingu. Til staðar þarf að vera skipulag fyrir iðngarða og skoða mætti fýsileika stórra hugmynda eins og alþjóðaflugvallar á Geitasandi svo eitthvað sé nefnt. Græn atvinnusköpun þarf að vera höfð að leiðarljósi. Samgöngur þurfa að eflast og fækka þarf malarvegum innan sveitarfélags. Þó mikið sé framleitt af orku á svæðinu þá vantar betri möguleika til að ná henni út úr kerfinu – tengivirki og þvíumlík – eins þarf að bæta raforkudreifingu innan svæðis. Vantar fleira fólk. Heildstæð nálgun þ.e. Rafmagn - > Tengivirki -> Skipulag -> ný starfsemi! Hugsa þetta alla leið.
Svör við spurningum sem bornar voru upp á fundinum verða birtar fyrir eða eftir Páska.
Frábærar umræður áttu sér stað á fundinum og verða spurningar sem þar voru lagðar fram ásamt ítarlegri svörum við spurningum hér að ofan m.a. sendar til atvinnu- og menningarmálanefndar sveitarfélagsins þar sem næstu skref verða tekin.
TAKK fyrir frábært málþing – tækifærin blasa við í Rangárþingi ytra!