Fjárhagsáætlun samþykkt í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti samhljóða fjárhagsáætlun fyrir árin 2025-2028 á fundi sínum 11. desember 2024. Góð samvinna var á milli kjörinna fulltrúa við gerð áætlunarinnar.

Sveitarstjórn hefur við fjárhagsáætlunargerðina reynt að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf og miða almennt við forsendur kjarasamninga. Þá var tekin ákvörðun um að lækka álagningarhlutfall A-hluta fasteignagjalda úr 0,30 í 0,28, C-hluta fasteignagjalda úr 1,50 í 1,45 og fráveitugjalda úr 0,21 í 0,20 til að koma til móts við fasteignaeigendur vegna hækkunar á fasteignamati.

Varðandi lykiltölur úr fjárhagsáætlun 2025 er gert ráð fyrir að heildartekjur Rangárþings ytra (A og B hluta) árið 2025 nemi alls 3.978 mkr. Rekstrargjöld eru áætluð 3.314 mkr. og þar af reiknaðar afskriftir 212 mkr. Fjármagnsgjöld eru áætluð 209 mkr. Gert er ráð fyrir fjárfestingu að fjárhæð 1.326 mkr. Skuldaviðmið verði 73,9% og skuldahlutfall 98,5%. Rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um 242 mkr. Fjárhagsáætlunina má nálgast með því að smella hér.

Áfram er gert ráð fyrir heimgreiðslum og hlutaheimgreiðslum sem valkosti fyrir foreldra barna að tveggja ára aldri og leikskólagjöld eru með þeim lægstu á landinu þrátt fyrir stigskipta gjaldskrá leikskólans til að bregðast við áskorunum á leikskólastiginu.

Allt þetta gerir Rangárþing ytra að ákjósanlegum stað til að búa á.

Á næsta ári verður haldið áfram með byggingu nýs grunn- og leikskóla á Hellu, en það er stærsta framkvæmd sveitarfélagsins frá stofnun þess. Ráðgert er að taka í notkun annan hluta skólahúsnæðis fyrir næsta haust og hefja jafnframt framkvæmdir við þriðja hluta sem mun hýsa nýjan leikskóla. Þá er gert ráð fyrir að nýr gerfigrasvöllur verði tekinn í notkun á Hellu haustið 2025.

Gríðarleg uppbygging er í sveitarfélaginu öllu og því mikil tækifæri fram undan á nýju ári.

 

Jón G. Valgeirsson

sveitarstjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?