Umsóknarfrestur fyrri úthlutunar í Uppbyggingarsjóð árið 2017 er til 14. mars, opnað verður fyrir móttöku umsókna í febrúar. Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni, auk annara verkefna sem falla að sóknaráætlun Suðurlands og stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans. Sjóðnum er skipt í tvo flokka; Menning og Atvinnuþróun og Nýsköpun.
Verkefnastjórn Sóknaráætlunar á Suðurlandi fer með hlutverk úthlutunarnefndar samkvæmt samningi um sóknaráætlun Suðurlands. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS).
Eins og undanfarin ár verður úthlutað tvisvar sinnum úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands árið 2017. Fyrri úthlutunin fer fram að vori og seinni að hausti. Opnað verður fyrir umsóknir vegna vorúthlutunar í febrúar er umsóknarfrestur til og með 14. mars. Opnað verður fyrir umsóknir vegna haustúthlutunar í september og er síðasti séns til að sækja um 16. október 2017.