23. maí 2023
Fréttir
Þann 1. janúar 2023 tóku í gildi lagabreytingar á m.a. á lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Markmið breytinganna er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærari auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.
Með þessum lagabreytingum var m.a. framleiðendaábyrgð framlengd og fá nú sveitarfélög greitt úr Úrvinnslusjóði fyrir að safna sjálf eða láta verktaka safna endurvinnsluefnum frá heimilum og grenndarstöðvum. Sjá nánar í kafla 4.7 í Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar sem Samband Íslenskra sveitarfélaga og
Umhverfisstofnun lét gera. https://www.samband.is/wp-content/uploads/2022/10/handbok-urgangur-okt2022.pdf
Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. nú orðin þjónustuaðili Úrvinnslusjóðs. Í því felst að Sorpstöðin sem sér alfarið um söfnun og meðhöndlun á úrgangi í Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra og Ásahreppi ber ábyrgð á því að ráðstafa þeim endurvinnsluefnum sem safnað er á svæðinu til viðurkennds ráðstöfunaraðila og fær fyrir það greitt frá Úrvinnslusjóði.
Þau endurvinnsluefni sem hér um ræðir eru hverskonar umbúðir úr plasti, pappír, gleri, málmum og viði.
Það er því mikið hagsmunamál fyrir Rangárþing ytra og Sorpstöðina að íbúar vandi flokkun á þessum endurvinnsluefnum bæði í heimatunnur (plast og pappír), á grenndarstöðvum og á móttökustöðinni á Strönd.
Með samstilltu átaki íbúa í aukinni og vandaðri flokkun endurvinnsluefna er hægt að minnka magn almenns óflokkaðs úrgangs sem skilar sér í lækkuðum sorpgjöldum íbúa, því almennur óflokkaður úrgangur (svarta tunnan) er mjög dýr í afsetningu.
Takið þátt í umhverfisviku í Rangárþingi ytra, markmið umhverfisviku að auka umhverfisvitund og ábyrgð íbúa og fyrirtækja á sínu nærumhverfi.
Við berum öll ábyrgð!