Læsishvetjandi umhverfi í leikskólanum á Laugalandi

Dagur leikskólans er í dag, 6. febrúar. Af því tilefni hefur Leikskólinn á Laugalandi birt skemmtilega grein um læsishvetjandi umhverfi í leikskólanum sem við mælum með að þið lesið.

 

Læsishvetjandi umhverfi í leikskólanum

Hér við Leikskólann Laugalandi starfar fjölbreyttur og samhentur starfsmannahópur sem hefur það sameiginlega markmið að hlúa sem best að þroska og vellíðan allra barna í leikskólanum.

Í leikskólanum er hver dagur hlaðinn mikilvægum augnablikum, þar sem starfsfólk vinnur að því að efla börnin í sjálfshjálp, styðja þau í félagslegum samskiptum, hvetja þau til að takast á við áskoranir eða hjálpa þeim að leiðrétta mistök og læra af. Í öllu starfi felast tækifæri, dýrmæt augnablik þar sem starfsfólk, lært sem ólært, styður við þroska barnsins.

Segja má að tveir þættir séu hvað veigamestir í starfinu hér við leikskólann á Laugalandi, málörvun og félagsleg samskipti. Þessir þættir eru að mörgu leiti samofnir en í þessum stutta pistli langar mig að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi málörvunar og hvernig við getum skapað læsishvetjandi umhverfi hér í leikskólanum.

Í leikskólanum er unnið að málörvun með fjölbreyttum hætti alla daga ársins. Hér á elstu deildinni höfum við lagt töluverða áherslu á að skapa læsishvetjandi umhverfi. Vikulega fara börnin í málörvunarstundir þar sem unnið er sérstaklega með þá þætti sem liggja til grundvallar farsælu lestrarnámi. Þá höfum við haft daglega morgunfundi þar sem mikil áhersla er lögð á að læra nýja söngtexta, vísur og þulur. Börnin hafa staðið sig afar vel í því að leggja á minnið nýja texta en mánaðarlega eru kynntir nýir textar, sem tengjast annað hvort tilheyrandi árstíð eða því þema sem unnið er með á deildinni hverju sinni. Á hátíðarstundum stíga börnin síðan á stokk og fara með vísur og söngva fyrir áheyrendur.

Lestur er einnig veigamikill þáttur í starfinu hjá okkur hér uppi á Landi. Á hvíldartíma hafa börnin val um hvernig hvíld þau kjósa þann daginn og höfum við boðið upp á „lengri lestur” tvisvar í viku í vetur. Þar hafa börnin hlustað á bækurnar níu um Benedikt Búálf, allar tíu bækur Ævars Þórs Benediktssonar „þín eigin saga” og í næstu viku munum við hefja lestur á Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren. Þá ákváðum við einnig að kynna eldri barnabækur fyrir börnunum í lok nóvember og lásum þá bækur á borð við Salómon svarta, Dísu ljósálf, Alfinn Álfakóng og Selinn Snorra. Geta barnanna til að sitja og hlusta hefur lengst jafnt og þétt í vetur og áhugi þeirra á lestrinum er fölskvalaus.

Á deildinni höfum við einnig bókaverði, en þá eru tvö börn valin til að gegna hlutverki bókavarða eina viku í senn. Börnin hafa alla jafna óheftan aðgang að bókum inni á deildinni, en bókaverðir hafa það hlutverk að velja hvers konar bækur séu aðgengilegar hverju sinni. Þá fá allir tækifæri til að velja bækur eftir sínu áhugasviði og er þá skipt um bækur vikulega. Þetta hlutverk hefur vakið mikla lukku og hefur haft þau áhrif að börnin setjast oftar niður til að skoða bækur, enda alltaf eitthvað nýtt að sjá.

Þá er mikilvægt að nefna spennandi samstarf við Laugalandsskóla, en í tilefni af degi íslenskrar tungu í nóvember komu börn úr 1. og 2. bekk og lásu fyrir þrjá elstu árganga leikskólans. Þessar heimsóknir voru afskaplega hvetjandi fyrir elstu börnin og í kjölfarið settu þau upp lestrarstundir þar sem þau skiptust á að „lesa” fyrir hvert annað. Á vormánuðum eigum við síðan von á heimsóknum frá börnum úr 3. og 4. bekk og það verða án efa skemmtilegar lestrarheimsóknir.

Tvisvar á ári blæs leikskólinn á Laugalandi til lestrarátaks. Markmiðið er tvíþætt, lestrarátakið er mikilvægur þáttur í samstarfi heimilis og skóla en að sama skapi er mikilvægt að vekja foreldra til umhugsunar um mikilvægi þess að lesið sé fyrir börn.

Í nóvember síðastliðnum fengu börnin hér á elstu deildinni heim með sér „blöðrur”. Blöðrurnar áttu þau að klippa út og koma með í leikskólann þegar lesin var fyrir þau bók heima, blöðrurnar mynduðu síðan heljarinnar loftbelg hér inni á deildinni.

Vikuna 10.–14. febrúar verður síðan Bókavika hér í leikskólanum. Hér uppi á Landi munum við leggja aukna áherslu á bókalestur þá viku ásamt því að hvetja börnin til að taka sína uppáhaldsbók með sér í leikskólann og kynna hana fyrir hinum börnunum á morgunfundi. Bækurnar sem börnin koma með munum við síðan nýta til frekari vinnu hér inni á deildinni.

Allir þessir þættir ásamt góðu samstarfi við foreldra eru undirstaða þess að skapa læsishvetjandi umhverfi hér í leikskólanum. Rannsóknir sýna að leikskólaárin eru mikilvægustu mótunarár málþroska, fari barn á mis við þá þætti sem þróast á þessum árum getur það haft alvarleg áhrif á möguleika þess til að öðlast góða færni þegar formlegt lestrarnám hefst. Málörvun í leikskóla, sem byggir á reynslu og fagþekkingu leikskólakennara, er því mikilvæg undirstaða farsæls lestrarnáms barnanna þegar í grunnskóla er komið.

Kristín Ósk Ómarsdóttir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?