Breytingar á gjaldskrá Odda bs. taka gildi 1. janúar

Nokkrar breytingar verða á gjaldskrá Odda bs. frá og með 1. janúar 2025 sem mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar kynni sér vel.

Oddi bs. er byggðasamlag Rangárþings ytra og Ásahrepps sem rekur grunn- og leikskóla sveitarfélaganna.

Ný gjaldskrá var samþykkt á sveitarstjórnarfundi 13. nóvember 2024 og bókun um málið má lesa í heild sinni í fundargerð með því að smella hér.

Fyrir utan venjubundnar vísitöluhækkanir snúa veigamestu breytingarnar að breyttum vistunartíma á föstudögum og stigskiptum gjaldskrárhækkunum á dvalartíma leikskólanna.

Þessi niðurstaða kemur í kjölfar tillagna stýrihóps um þróun leikskólastarfs en tillögur hópsins má lesa í heild sinni í fundargerð Odda bs. frá 7. október sl.

Markmiðin með breytingunum eru nokkur.

  • Að skapa aðstæður fyrir gott og öflugt leikskólastarf þar sem börnum líður vel og þau eru örugg.
  • Að koma til móts við ákvæði kjarasamninga um 36 klukkustunda vinnuviku.
  • Að bæta starfs- og rekstrarumhverfi leikskólanna.
  • Að gera leikskólana að enn eftirsóknarverðari vinnustað.

Tekin verður upp stigskipt gjaldskrá eftir vistunartíma og lagt er upp með að vistun ljúki kl. 14 á föstudögum. Þó munu leikskólarnir bjóða upp á sérskráningu gegn gjaldi eftir kl. 14 á föstudögum en sækja þarf sérstaklega um slíkt hjá leikskólastjórum.

Þá verða leikskólarnir lokaðir í jólafríi grunnskóla og í dymbilvikunni en boðið verður upp á sérskráningu á virkum dögum þessara tímabila, sem ekki eru fyrirfram skilgreindir frídagar, gegn gjaldi. Gjöld fyrir viðbótarvistun frá 07:45–08:00 og frá 16:00–16:15 hækka einnig sem og gjald fyrir að sækja börn eftir umsaminn vistunartíma.

Helsta breytingin sem snýr að grunnskólunum er sú að skóladagheimilið lokar kl. 14 á föstudögum frá og með áramótum og ekki verður í boði að sækja um lengri vistun.

Helstu punktar varðandi leikskólana:

  • Lágmarksvistunartími er 3 dagar í viku, 4 klst. á dag og 20 klst. á viku.
  • Sveigjanlegur vistunartími er í boði – hægt að hafa daga mislanga og/eða sleppa 1–2 dögum í viku.
  • Hægt er að sækja um vistun frá 07:45–08:00 og 16:00–16:15 gegn sérstöku gjaldi.
  • Grunngjald er greitt fyrir öll börn upp að 30 tíma vistun á viku – stigskipt, aldurstengt álag á gjöld er fyrir vistun frá 30–40 klst.
  • Gert er ráð fyrir að hámarksdvalartími 12–24 mánaða barna sé 30 klst. á viku og sækja þarf um lengri vistun hjá leikskólastjóra. 50% álag er á vistunartíma umfram 30 klst. hjá þessum aldurshóp.
  • Gert er ráð fyrir að leikskólar loki kl. 14 á föstudögum en hægt er að sækja um vistun frá kl. 14–16 á föstudögum hjá leikskólastjóra.
  • Skráningardagar eru í jólafríi grunnskóla og í dymbilviku. Þá er leikskólinn lokaður en hægt er að sækja um vistun hjá leikskólastjóra og gildir sérstakt gjald fyrir þessa daga.

Gjaldskrána má skoða í heild sinni hér.

Nokkur reiknidæmi til að skýra málið betur:

  Vistun 8-16 alla daga nema til 14 á föstudögum Vistun 9-15 alla daga nema 14 á föstudögum Vistun 8-16 3 daga í viku - ekki föstud. Vistun 8–16, 5 daga vikunnar Vistun 8-16 alla daga og aukakorter x2
12–24 mánaða 31.994 23.151 18.894 42.346 47.346
24 mánaða og eldri 31.250 23.151 18.894 41.602 46.602

 

Við hvetjum foreldra og forsjáraðila til að hafa samband við sinn leikskólastjóra eða skólastjóra ef einhverjar spurningar vakna. Leikskólastjórar geta einnig aðstoðað við að reikna út gjöld ef þörf er á.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?