Bréf til hreppsnefndar frá Hjördísi G. Brynjarsdóttur

Hella 18.04.2013

"Kæra Hreppsnefnd og aðrir er þetta mál gæti varðað,

Á Hellu hefur alltaf verið hesthúsahverfi sem er gott og blessað og ég undirrituð sem íbúi á Hellu finnst mjög gaman að hafa hrossin og önnur dýr í nágrenni við mig og eiga þess kost að fara og skoða þau, enda hef ekkert útá þau sem slík að setja.

Hinsvegar finnst mér alveg til skammar að reiðmenn hér í bæ og nágrenni sem eiga hesthús og hross í hesthúsahverfinu geti óhindrað riðið um götur og á gróðri bæjarins.

Eins og þið vitið vonandi öll þá liggur Langisandur frá hesthúsahverfinu og útað þjóðvegi 1 og þaðan er síðan greið leið yfir þjóðveginn og á Gaddstaðaflatir. Undanfarin ár og mánuði hefur hestafólk riðið ítrekað um götuna, ekki veit ég afhverju en ímynda mér að þau séu e.v.t. að stytta sér leið, og er því Langisandur orðinn að „nýjum“ reiðstígi fyrir hestafólk. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum (í viðhengi tölvupósts) hefur umferð hrossa eyðilagt viðkvæman grassvörð og djúpar götur eru að myndast. Ekki er þetta falleg sjón í annars okkar fallega bæ og umhugsunarvert nú þegar ferðamannastraumurinn fer að aukast. Er þetta það sem við viljum bjóða uppá? Hrossaskít og drullusvöð milli blómabeða??

Ég veit ekki betur en að fyrir nokkrum árum var gerður þessi fíni reiðstígur og undirgöng undir þjóðveg 1 sem liggur austan við byggðina og hefur væntanlega markmiðið með þessari leið verið að auðvelda hestafólki leiðina að Gaddstaðaflötum, minnka áhættu sem getur fylgt reiðtúrum í umferðinni sem og að hestafólk geti riðið út nær náttúrunni. Samt sem áður er mjög algengt að sjá hestafólk ríða um Langasandinn og veit ég þess dæmi að hestamaður hafi skammað dreng er hann gekk yfir gangbrautina á Langasandi með hund sinn sem gelti að hestinum. Er það sanngjarnt? Einnig finnst mér ekki hægt að bílaumferð á Langasandi þurfi öll að miðast við það hvort hestamaður sé þar á ferð eður ei! Er það sanngjarnt?  

Vil ég einnig koma á framfæri hrósi til hestafólks sem nýtir sér reiðstíginn austan við byggðina!

Umræðan um upphirðu hundaskíts um götur þessa og annarra bæja hefur verið há undanfarið. Ég sem hundaeigandi hef vanið mig á að hirða upp eftir minn hund og í göngum mínum um bæinn verð ég ekki oft vör við hundaskít á leið minni. Sama get ég ekki sagt um hrossaskítinn á Langasandi, oftar en ekki þarf ég að stíga út á götu til að forðast að stíga- eða keyra (með barnavagn)  í hrossaskítinn sem liggur á götunni eða á gangstéttum/stígum, sem er algerlega óþolandi (sjá myndir).

Sem skattgreiðandi í þessu bæjarfélagi vil ég heldur sjá skattfé okkar fara í viðgerðir, viðhald og uppbyggingu á þeim mannvirkjum og útivistarsvæðum sem uppá vantar og fyrir eru, þ.a.m. reiðstíginn, sé þess þörf, en ekki vera að henda peningum í viðgerðir á gróðri sem á þessum tíma ársins er ofurviðkvæmur og myndi líklegast teljast sem skemmdarverk ef annarsstaðar væri. Ég held að það yrði ekki liðið lengi ef einhverjir ökumenn keyrðu um á grasbölum bæjarins. Eitt verður yfir alla að ganga.

Með þessu bréfi mínu vonast ég til þess að þið ágæta hreppsnefnd gerið nú eitthvað varanlegt í málunum svo umferð hrossa um Langasand verði hætt hið snarasta. Veit ég vel að hingað til hefur verið reynt að girða, gróðursetja og fl. þeim dúr til að hindra ágang hestafólks um fyrrnefnda götu en það hefur ekki skilað árangri sem erfiði.

Með ósk um skjót viðbrögð

Hjördís G.Brynjarsdóttir

Breiðöldu 9 Hellu."

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?