Veitur hafa nú hætt borun í landi Götu við Laugaland. Markmið borunarinnar var að afla heits vatns og auka þannig nýtanlegan forða fyrir Rangárveitur er þjóna Rangárþingum og Ásahreppi að hluta.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
Upphaflega var gert ráð fyrir að borholan yrði 1.800 m djúp en ákveðið var að dýpka holuna í von um að hitta á góðar vatnsæðar. Var borað niður á 1.855 m dýpi en árangur hefur ekki verið í takt við væntingar og núverandi aðstæður bjóða ekki upp á frekari borun á svæðinu. Veitur munu gera mælingar á holunni og taka ákvarðanir um frekari forðaöflun fyrir Rangárveitur í kjölfarið.
Áður hafði verið greint frá því í síðustu viku að skortur yrði á heitu vatni í Rangárþingum og Ásahreppi. Sundlaugarnar á Laugalandi, Hellu og Hvolsvelli hafa verið lokaðar í rúmar tvær vikur og verða það eitthvað áfram.
Nú er staðan sú að veturinn er skollinn á og notkun á heitu vatni eykst samhliða því. Veitur þurfa því að gangsetja þá holu sem hvíld var meðan á borun stóð. Búast má við að nokkra daga taki að ná jafnvægi í rekstri veitunnar. Á meðan verða sundlaugar lokaðar og hitastig vatnsins lægra hjá íbúum á jaðarsvæðum.