Auglýsing um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu

 

AUGLÝSING

um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu

Sveitarfélagið Rangárþing ytra auglýsir eftir aðilum til að nýta lóð undir ferðaþjónustu við Álftavatn.  Um er að ræða 810 m² lóð, merkt S-1, sbr. deiliskipulag fyrir Álftavatn sem öðlaðist gildistöku með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. október 2010.

Umrætt svæði er á þjóðlendu (Rangárvallaafrétti) skv. úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 3/2003. Í ljósi þess þarf leyfi sveitarfélagsins Rangárþings ytra til að nýta land og landsréttindi á svæðinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og áfrétta. Jafnframt þarf samþykki forsætisráðuneytisins þar sem umrædd nýting á að vara lengur en til eins árs, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Rangárþing ytra lét vinna deiliskipulag fyrir þjónustusvæðið við Álftavatn á árinu 2010. Á svæðinu eru nú þrír gistiskálar auk salernisshúss sem allt fellur undir rekstur Ferðafélags Íslands.

Skilmálar sem einkum verður litið til við ákvörðun um leyfisveitingu á umræddu svæði eru eftirfarandi. Ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

- hvernig viðkomandi hyggst nýta lóðina í þeim tilgangi að hafa þar þjónustu fyrir ferðamenn og aðra sem eiga leið um svæðið,

- frágangur mannvirkja og annarrar starfsemi. Sveitarfélagið mun sérstaklega líta til þess að frágangur verði með þeim hætti að samræmist landslagi vel og stingi ekki í stúf við umhverfið að öðru leyti,

- reynsla viðkomandi aðila af rekstri gisti- og afþreyingarþjónustu, s.s. gistihúsa á miðhálendinu og starfsemi fjallaskála,

-reynslu af gerð og viðhaldi göngustíga og annnarra ferðaþjónustutengdra mannvirkja.

Upplýsingar um drög að lóðablaði og deiliskipulag svæðisins má nálgast á skrifstofu Rangárþings ytra, Suðurlandsvegi 1-3, 850 Hellu eða með því að smella hér

Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið tillögu að notkun á umræddu svæði til sveitarfélagsins Rangárþings ytra, eigi síðar en 3. júní nk.

Fh. Rangárþings ytra

Har. Birgir Haraldsson, skipulagsfulltrúi

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?