Hella er stærsti þéttbýliskjarni Rangárþings ytra og þróun þéttbýlisins tengist Suðurlandsvegi sem nú liggur í gegnum byggðina. Í áranna rás hefur myndast þéttbýliskjarni meðfram Suðurlandsveginum og á Hellu er að finna öflug atvinnufyrirtæki, þjónustufyrirtæki og helstu þjónustustofnanir sveitarfélagsins. Með mikilli fjölgun ferðamanna hefur umferð um Hellu tæplega tvöfaldast á síðustu árum. Samhliða hefur atvinnutækifærum fjölgað og sveitarfélagið fengið fjölda fyrirspurna frá stærri sem smærri fyrirtækjum um lausar lóðir en lítið framboð hefur verið af lóðum til uppbyggingar á mismunandi atvinnustarfsemi.
Sveitarfélagið réðist í gerð deiliskipulags fyrir nýtt svæði sunnan Suðurlandsvegar og ætlar þar með að koma til móts við mikla eftirspurn eftir lóðum, hvort sem er til verslunar- og þjónustu, athafnastarfsemi eða til iðnaðar. Deiliskipulagið hefur verið unnið í samræmi við tilheyrandi lög og reglugerðir og tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild stjórnartíðinda þann 25. nóvember sl.
Markmiðið með gerð deiliskipulags fyrir uppbyggingarsvæðið sunnan Suðurlandsvegar er að geta boðið upp á lóðir til úthlutunar sem henta fjölbreyttri atvinnustarfsemi á Hellu. Þannig verði brugðist við aukinni eftirspurn eftir slíkum lóðum og tryggt að þéttbýlið geti þróast áfram sem vaxandi þjónustumiðstöð á Suðurlandi.
Skipulagssvæðinu er skipt upp í þrjá reiti eftir mismunandi áherslu um starfsemi innan þeirra. Gert er ráð fyrir 24 lóðum í heild. Byggingar geta verið á 1-2 hæðum og nýtingarhlutfall 0,2-0,4. Lögð er áhersla á vandaðan frágang lóða. Samkvæmt aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016/2028 er heimilt að hafa hreinlega starfsemi sunnan til á verslunar- og þjónustusvæði og einnig er heimilt að hafa grófari iðnaðarstarfsemi á syðri hluta athafnasvæðis, þó þannig að hún rúmist innan ákvæða um athafnasvæði. Þannig geta mismunandi áherslur landnotkunar blandast á milli svæða ef það er talið henta.
Tvær megingötur eru áformaðar á svæðinu sem liggja í gegnum hverfið milli Gaddstaðavegar að vestanverðu til austurs að tengingu fyrirhugaðs hringtorgs á Suðurlandsvegi austan við Reykjagarð. Nyrðri gatan, nær Suðurlandsveginum, fær heitið Faxaflatir þar sem gert verður ráð fyrir 9 lóðum undir verslunar- og þjónustustarfsemi. Lóðirnar eru frá um 2600 m² að stærð uppí tæplega 6500 m². Sleipnisflatir er svo syðri gatan en ofan við hana er reiknað með 7 lóðum undir hreinlega starfsemi athafnalóða. Lóðirnar eru frá um 2700 m² að stærð og uppí tæplega 4000 m². Svæði fyrir iðnaðarstarfsemi er svo sunnan við Sleipnisflatir. Þar er reiknað með 8 lóðum undir hreinlega iðnaðarstarfsemi. Lóðirnar eru frá um 4100 m² að stærð til um 8500 m² en þó með einni undantekningu að ein syðsta lóðin er um 25000 m² að stærð.
Lóðirnar verða auglýstar til úthlutunar á næstunni eða um leið og lóðablöð verða tilbúin og reiknað er með að framkvæmdir við gatnagerð og innviði svæðisins hefjist fljótlega á nýju ári. Gert er ráð fyrir að úthlutun lóða á svæðinu geti hafist snemma á nýju ári.
Har. Birgir Haraldsson
Skipulags- og byggingafulltrúi
Þessi frétt birtist í fréttabréfi Rangárþings ytra sem má nálgast hér.