Atvinnubrú leitar að atvinnurekendum til samstarfs

Nýverið lagði Háskólafélag Suðurlands fram beiðni til sveitarfélagsins um að kynna og hvetja íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins til þátttöku í áhersluverkefninu „Atvinnubrú“ sem félagið stýrir í samstarfi við SASS.

Í stuttu máli snýst verkefnið um að efla tækifæri sunnlenskra háskólanema til þátttöku í rannsóknum og verkefnum í heimabyggð og auka einnig tengingu þeirra við fyrirtæki á svæðinu.

Verkefninu er ætlað að efla og styrkja stöðu háskólamenntunar í landshlutanum og er það gert með því að skapa samstarfsvettvang með ólíkum aðilum víðsvegar úr atvinnulífinu. Mun vettvangurinn bjóða upp á samfélag háskólanemenda, fræðimanna, fyrirtækja og stofnana þar sem styrkleikar hvers og eins eru nýttir til uppbyggingar sterkara tengslanets. Háskólafélagið leitar að fyrirtækjum, stofnunum og ekki síst fólki sem er tilbúið til þess að taka þátt á einn eða annan hátt.

Byggðarráð hvetur íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu að skoða með þátttöku í verkefninu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?