Áramótapistill sveitarstjóra

 

Nú styttist í næstu áramót, enn einu árinu er að ljúka og annað tekur við með sínum tækifærum og áskorunum. Tíminn líður víst áfram hvað sem tautar og raular og lítið sem maður getur gert við því annað en rýna í framtíðina og læra af fortíðinni.

Það verður seint ofsagt á tímum mikillar óvissu í heiminum hvað við erum lánsöm að búa í friðsamlegu og fallegu landi þó það geti á köflum verið harðneskjulegt og náttúruöflin óvægin. Við erum stöðugt minnt á að við búum í landi náttúrunnar og náttúruhamfarir eru eitthvað sem við þurfum að búa okkur undir eins og dæmin sanna og slíkar aðstæður geta líka komið upp í okkar samfélagi. Hins vegar mótar náttúran okkur líka sem einstaklinga og þjóð og vonandi skilar seigla og þolgæði okkur áfram sem samfélagi.

Árið sem er að líða hefur verið afar viðburðaríkt og mjög margt í gangi, bæði stórt og smátt. Það er ánægjulegt að sjá út um gluggann hvað vel gengur með byggingu skólamannvirkja á Hellu og nú er að koma bragur á annan áfanga grunnskólans sem verður tekinn í notkun næsta haust. Þetta er mikil bygging og heyrst hefur að gárungarnir kalli þetta „kastalann“. Kannski stendur hann undir nafni og verður miðpunktur menntunar og visku í samfélaginu og staðarprýði í þorpinu. Það eru líka önnur verkefni sem ánægjulegt er að hafi komist á rekspöl því byrjað er á fyrsta fasa á breytingum á mannvirkjum uppi á Laugalandi til að styrkja skólastarfið og aðra starfsemi þar. Það verður víst seint ofsagt að skólarnir eru miðja hvers samfélags og lykilstofnanir í daglegu lífi fólks. Reynt hefur verið að bregðast við þeim áskorunum sem hafa komið upp, sérstaklega að styrkja starfsaðstæður í leikskólunum, en vonandi með sem minnstum áhrifum á foreldra og atvinnulíf.

Þá hefur árið farið mikið í að spekúlera og afgreiða ýmislegt sem tengist orkumálunum og hefur gengið á ýmsu í því sambandi. Ég hef þá trú að bæði vindlundurinn við Vaðöldu og Hvammsvirkjun verði mikil tækifæri fyrir okkar samfélag og við gerum okkur ekki grein fyrir hversu miklar breytingar munu fylgja þessum framkvæmdum og þá flestar jákvæðar. Það er mikill áfangi fyrir okkur og landsbyggðina að Landsvirkjun er að fara að byggja starfsstöð á Hellu. Það hefur lengi skort á vilja að nærsamfélög uppsprettu orkunnar njóti meiri ávinnings af sínum auðlindum. Við treystum síðan á að nýtt Alþingi klári hratt og örugglega nauðsynlegar lagabreytingar til að nærsamfélögin njóti sanngjarnari tekjuskiptingar af þessum auðlindum sínum.

Það eru síðan hefðbundin desemberverkefni að klára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár og þau fjögur næstu. Það hefur enn og aftur verið ánægjulegt að vinna að fjárhagsáætluninni, margar góðar hugmyndir hafa komið fram í vinnu sveitarstjórnar, starfsmanna, nefnda o.fl. sem hafa komið að þessari vinnu og lagt til góðar upplýsingar í púkkið. Vil ég þakka fyrir góð vinnubrögð og samskipti allra þeirra sem hafa komið að þessari vinnu en það hjálpar eðlilega líka til við vinnuna að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er bærileg.

Gert er ráð fyrir að afkoma næsta árs verði góð eða um 242 milljónir. Það mun ekki af veita þar sem fjárfestingarplön sveitarfélagsins á næsta ári nema um 1,3 milljörðum sem er nýtt met. Ber þar hæst að klára annan áfanga við Grunnskólann á Hellu, byrja á þriðja áfanga við leikskólann á Hellu og síðan að klára gervigrasvöllinn á Hellu. Margt fleira misstórt er síðan í pípunum og verður alveg krefjandi að koma þessu öllu í framkvæmd. Vonandi verða ytri aðstæður okkur líka hagfelldar. Þar gengir lykilhlutverki að vextir og verðbólga lækki því sveitarfélagið þarf að fjármagna sig að nokkru leyti með lántökum sem við reyndar höfum getið haldið í lágmarki til þessa sem er mjög jákvætt.

Annars hvet ég alla íbúa, fyrirtæki og gesti okkar samfélags að láta gott af sér að leiða á næsta ári, hvet alla til frumkvæðis í sínu lífi og að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Tækifæri þessa samfélags eru mörg og stór og það er okkar allra að reyna að sjá til þess að þau verði að veruleika.

Persónulega er maður alltaf að koma sér betur fyrir á Hellu. Það er mikill lúxus að geta rölt í vinnuna og stutt er í alla þjónustu sem eru oft vanmetin lífsgæði. Að lokum vil ég óska starfsfólki, íbúum og öðrum sem tengjast þessu samfélagi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?