Hjá sveitarfélaginu hefur verið unnið eftir sérstakri COVID19 viðbragðs- og aðgerðaáætlun frá því 5. mars sl. Þrátt fyrir allt þá hefur gengið framar vonum að vinna eftir áætluninni og hemja útbreiðslu veirunnar enda allir lagt sig fram, starfsfólk sveitarfélagsins, foreldrar, atvinnurekendur og íbúar almennt. Það hafa allir lagst á eitt við að halda ró sinni og yfirvegun og fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út á landsvísu af sóttvarnarlækni, landlækni og almannavörnum.
Á síðustu dögum og vikum hafa viðbrögð fyrst og fremst snúist um sóttvarnir og að beita öllum þeim varúðarráðstöfunum sem tiltækar eru til að hefta og tefja útbreiðslu veirunnar. En það sem jafnframt þarf að huga að eru áhrifin sem faraldurinn hefur á atvinnulíf og efnahag til skamms tíma og skipuleggja aðgerðir í þeim efnum. Við trúum því öll að áhrifin séu fyrst og fremst til skemmri tíma og að líf okkar komist í samt horf þegar til lengri tíma er litið – enda vitum við að öll él birtir upp um síðir. Sveitarstjórn okkar hittist á fundi í gær til að fara yfir málin og undirbúa aðgerðir varðandi fjárhagsmál. Það fyrsta sem þegar hefur verið virkjað er að einstaklingar og fyrirtæki sem búa við tekjufall vegna aðstæðna í atvinnulífinu geta óskað eftir því að fresta eindaga fasteignagjalda næstu mánaða fram á haustið og hefur verið útbúið sérstakt eyðublað fyrir slíkar umsóknir sem nálgast má hér á heimasíðu sveitarfélagsins. Annað sem liggur fyrir er að í ljósi mikilla forfalla vegna COVID19 þá verða gjöld vegna leikskóla og skóladagheimilis einungis innheimt fyrir þá daga sem þjónustan hefur verið veitt í samræmi við mætingaskrá. Á fundinum var einnig farið yfir fjárhagsáætlun ársins, mögulega forgangsröðun framkvæmda og viðhaldsverkefna, og hvaða leiðir séu færar ef gera þarf breytingar vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Sveitarstjórn er einhuga í því að leggja allt kapp á að finna leiðir til að halda áætlun með þau mikilvægu framkvæmdaverkefni sem fyrir liggja sé þess nokkur kostur. Næsti reglulegi fundur sveitarstjórnar er 16. apríl og þá er gert ráð fyrir að frekara aðgerðaplan í fjárhagsmálum liggi fyrir. Þess má geta að viðbragðsteymi sveitarfélagsins sem er skipað skólastjórum og öðru forstöðufólki stofnana sveitarfélagsins fundar reglulega til að allir séu vel upplýstir um stöðu mála og til að taka sameiginlegar ákvarðanir varðandi verklag þjónustu sveitarfélagsins á hverjum tíma. Við tökum einn dag í einu og erum vongóð um að fljótt birti til á ný.
Bestu kveðjur
f.h sveitarstjórnar og viðbragðsteymis Rangárþings ytra
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri