Goðasteinn, héraðsrit Rangæinga, er kominn út í 60. sinn. Ritið kom fyrst út árið 1964 og áhugasöm geta blaðað í eldri eintökum á Tímarit.is.
Goðasteinn er mikilvæg heimild um mannlíf og menningu Rangæinga í gegnum tíðina og inniheldur ritið almennt samansafn af aðsendu efni auk greina og efnis úr smiðju ritstjórnar.
Harpa Rún Kristjánsdóttir ritstýrir en með henni í ritnefnd eru Einar Grétar Magnússon, Hulda Brynjólfsdóttir, Fanney Hrund Hilmarsdóttir, Sigrún Þórarinsdóttir og Guðjón Ragnar Jónasson.
Efnistökin eru fjölbreytt. Fastir liðir á borð við annála sveitarfélaganna, listamann Goðasteins og látna í Rangárþingi eru á sínum stað en auk þess má meðal annars finna afmælisannála Skógræktarfélags Rangæinga og Félags eldri borgara, umfjöllun um ljóð Sverris Haraldssonar í Selsundi heitins, afar fróðlega grein um Heklu eftir Guðrúnu Sverrisdóttur og greinina „Eitt fjall á viku“ um fjallgönguvegferð Grettis Rúnarssonar auk fjölda annarra áhugaverðra greina og umfjallana.
Auk fróðlegra efnistaka prýðir fjöldi fallegra mynda síður ritsins.
Það er Héraðsnefnd Rangæinga sem gefur ritið út og fá áskrifendur eintök sín send heim.
Þau sem eru ekki áskrifendur geta fest kaup á eintaki á Landvegamótum eða í Sveitabúðinni Unu á Hvolsvelli.
Útgáfuhóf ritsins var haldið 4. desember 2024 í Hvolnum á Hvolsvelli og hér fyrir neðan má skoða myndir frá viðburðinum.
f.v. Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, formaður Héraðsnefndar Rangæinga, Fanney Hrund Hilmarsdóttir, ritnefndarmeðlimur og Harpa Rún Kristjánsdóttir, ritstýra.
Góður hópur fólks kom saman til að fagna útgáfunni.
Myndir eftir listamann Goðasteins, Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttur, voru til sýnis.
Margrét Harpa afhendir Hörpu Rún þakklætisvott.
Gestir kíkja í ritið og spjalla saman.
Einar Þór Guðmundsson tók nokkur vel valin lög og fékk gesti til að syngja með.