01. febrúar 2013
Fréttir
Sveitarfélagið Rangárþing ytra fékk í gær úthlutað tveimur þriggja milljóna króna styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða (2. úthlutun) en umsóknargögnin voru send inn í september 2012. Alls fengu 44 verkefni styrk að þessu sinni og nam heildarstyrkupphæðin rúmlega 150 milljónum króna.
Verkefnunum er lýst svo:
- Deiliskipulag Landmannalauga
3.000.000 kr. styrkur til að láta vinna deiliskipulag fyrir Landmannalaugar. Markmið styrkveitingar er m.a. að bæta ásýnd og yfirbragð Landmannalauga til framtíðar, vernda stórbrotna náttúru og jarðminjar, bæta innviði fyrir ferðaþjónustu, auka öryggi og stjórna umferð ferðamanna um svæðið. Styrkurinn er til undirbúnings undir frekari hönnun og framkvæmdir á svæðinu.
- Rammaskipulag Fjallabaks - Nánari lýsing hér
3.000.000 kr. styrkur til áframhaldandi vinnu við rammaskipulag fyrir stór-Fjallabakssvæðið. Markmið styrkveitingar er m.a. að samræma skipulag og aðgerðir er varða ferðaþjónustu, samgöngur og öryggismál milli þriggja sveitarfélaga á þessu vinsælasta ferðamannasvæði á hálendi Íslands sem jafnframt er eitt viðkvæmasta svæði landsins náttúrufarslega. Áhersla er á að viðhalda ásýnd og yfirbragði svæðisins, draga úr álagi og skemmdum á náttúru og vernda náttúruminjar, en á sama tíma að byggja upp nauðsynlega innviði og þjónustu fyrir ferðafólk, bæta öryggi ferðamanna og stjórna umferð um svæðið.
Nánar um styrkina hér: www.ferdamalastofa.is