Að undanförnu hefur Þjóðskrá Íslands í samstarfi við Landmælingar Íslands, Ríkiseignir og Samband íslenskra sveitarfélaga unnið að bættri skráningu landeigna á Íslandi. Afmörkun landeigna er víða ábótavant og óvissa um eignarétt eykur líkur á ágreiningsmálum um eignamörk við ráðstöfun eigna.
Þörf er á átaki í skráningu á afmörkun landeigna í einkaeigu, þá sérstaklega afmörkun jarða sem er um margt er flóknari en afmörkun lóða í þéttbýli. Því hefur Þjóðskrá Íslands látið útbúa bækling með leiðbeiningum um uppmælingu eignamarka. Tæpt er á öllu ferli uppmælingar, allt frá heimildaöflun til staðfestingar sýslumanns og er vonast til að leiðbeiningarnar verði hvatning fyrir sem flesta til að ganga þannig frá málum að eignarréttur þeirra sé varinn með fullnægjandi hætti. Þá ætti bæklingurinn einnig að nýtast við ráðgjöf og kortagerð.
Leiðbeiningabæklinginn má finna á vef Þjóðskrár Íslands, einnig verður hægt að nálgast hann hjá skipulagsfulltrúa, í afgreiðslu sveitarfélagsins, hjá sýslumönnum og völdum stofnunum.