UPPBYGGINGARSJÓÐUR SUÐURLANDS: ÚTHLUTUN STYRKJA HAUST 2023

 

Þriðjudaginn 14. nóvember fór úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands fram í beinu streymi á vefnum.
Um er að ræða seinni úthlutun sjóðsins árið 2023. Umsóknir voru samtals 96, í flokki atvinnuþrónar- og nýsköpunarverkefna bárust 22 umsóknir og 74 í flokki menningarverkefna.
Að þessu sinni var 36,9 m.kr. úthlutað, rúmlega 12,9 m.kr. til 10 verkefna í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 23,95 m.kr. til 54 verkefna í flokki menningar. Samtals eru veittir styrkir til 64 verkefna.
Umsækjendur úr Rangárvallarsýslu voru níu talsins og hlutu sex þeirra styrk að þessu sinni.

Í atvinnu og nýsköpun:
Sighvatur Lárusson með verkefnið PackWall byggingaplötur – 2.500.000 kr.
Lýsing á verkefni:
Sjálf framleiðslan á PackWall byggingaplötunum er vel þekkt en hins vegar er að okkar mati hægt að bæta framleiðsluferlið og auka þær afurðir sem hráefnið býður uppá svo fyrirtækið geti boðið heildarlausn "Græna PackWall vegginn". Jafnframt er ætlunin að þróa aðferðir til að safna hráefni á nýjan hátt svo ekki þurfi að flokka allt hráefnið það hjá söfnunaraðilum.

Alda Björk Ólafsdóttir með verkefnið Krispa Fisk Snakk – 1.500.000
Lýsing á verkefni:
Krispa Fisk Snakk er þurrkaður fiskur með mismunandi bragtegundum og hefur svipaða áferð og kartöflu flögur. Krispa Fisk Snakk er hollustu snakk með háu prótein innihaldi og framleitt eingöngu úr íslenskum fiski með mismunandi kryddum og bragðefnum.

Kalsi ehf með verkefnið Áskot hestaþjálfunarstöð – 1.500.000
Lýsing á verkefni:
Uppbygging á heilsu- og þjálfunarstöðinni í Áskoti heldur áfram. Áætlað er að kaupa tæknibúnað sem styrkja mun rannsóknir á þjálfunarárangri í stöðinni. Búið er að deiliskipuleggja fyrir stækkun hesthúss og byggingu reiðhallar sem leggur grunn að öflugra starfi. Búið er að byggja þrjú smáhýsi í íslenskum stíl og önnur þrjú rísa í byrjun næsta árs. Í þróun eru upplifunarheimsóknir fyrir ferðamenn í hesthúsið til að fræðast um íslenska hestinn og sjá hann synda.

Í menningu:
Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir með verkefnið Töfrandi heimur – 600.000 kr.
Lýsing á verkefni:
Að skapa töfrandi heim og bjóða börnum í leikskólum á Suðurlandi í tónlistar-og skynfæraveislu. Flutt verða ný íslensk lög sem innihalda fróðleik og fallegan boðskap þar sem hvíld, manngæska og tengsl eru í fyrirrúmi. Að efla málskilning með samtali og fræðslu, skýrum textum og sterkum flutningi. Kynna leiðir og "velferðarverkfæri" sem börnin geta notað til að vinna gegn streitu. Að sýna hvernig töfrar tónlistar geta eflt mál- og tilfinningaþroska. Flytjendur eru kennaramenntað tónlistarfólk.

Oddafélagið með verkefnið Sæmundur fróði og saga Odda. – 600.000 kr.
Lýsing á verkefni:
Einu sinni var Sæmundur fróði barn og unglingur; einu sinni byrjaði Snorri Sturluson að læra að skrifa. Vandaðar ljósmyndir af helstu persónum Oddaverja á miðöldum gefa innsýn í horfinn heim og gera rykfallin nöfn að ljóslifandi persónum af holdi og blóði, líkt og um dramatískar stillur úr kvikmynd væri að ræða. Myndirnar verða í kynningarbæklingum, prent- og vefmiðlum og í margmiðlunarverkefni um sögu Sæmundar fróða og Odda, auk þess að vera hluti af utandyra sögusýningu í Odda.

Birna Sigurðardóttir með verkefnið Jólatónleikar kórs Hvolsskóla. – 350.000 kr.
Lýsing á verkefni:
Kórinn ætlar nú í þriðja sinn að halda glæsilega jólatónleika í upphafi aðventu hér heima í héraði, að þessu sinni í íþróttahúsinu á Hvolsvelli þann 1. desember næstkomandi. Undanfarin ár hefur kórinn fengið til liðs við sig tónlistarfólk úr héraði til að koma fram á tónleikunum með þeim og er stefnt að svipuðu þema í ár, það er að fá fólk úr héraði eða gefa fólki úr héraði kost á að koma fram með kórnum.

Lista yfir öll verkefni sem hlutu styrk má sjá hér.
Horfa má á Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Suðurlands hér

 

Rangárþing ytra óskar þeim öllum til hamingju

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?