Í október 1984 var sundlaugin á Hellu opnuð og á hún því 40 ára starfsafmæli í ár.
Það er líklega óhætt að fullyrða að tilkoma hennar hefur allar götur síðan verið ómetanleg lýðheilsubót fyrir íbúa jafnt sem gesti. Laugin hefur auðvitað nýst afar vel við sundkennslu og til almennrar heilsubótar auk þess sem hún er afar vinsæll viðkomustaður sundunnenda hvaðanæva að.
Laugin og svæðið í kring hefur breyst og þróast í gegnum árin en í dag samanstendur laugarsvæðið af 25 metra sundlaug, tveimur vaðlaugum, þremur heitum pottum og þremur rennibrautum. Einnig eru til staðar sána og kaldur pottur auk þess sem innrauð sána verður tekin í notkun á næstunni.
Á dögunum barst okkur sannkallaður gullmoli þegar Þórhallur Svavarsson, sem staðið hefur vaktina í íþróttamiðstöðinni í að verða aldarfjórðung, færði okkur myndskeið sem Einar Kristinsson tók við opnun laugarinnar í október 1984.
Þess ber að geta að afmælishátíð sundlaugarinnar verður haldin í lauginni 28. september nk. á milli kl. 18 og 21.