Eftir töluverðan undirbúning var skrifað undir þjónustu- og lóðaleigusamning á milli Rangárþings ytra og Akstursíþróttadeildar Ungmennafélagsins Heklu. Fram kemur í samningnum að meginmarkmið samningsins er að viðhalda öflugu og fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni í sveitarfélaginu, styrkja og treysta starfsemi deildarinnar og bæða aðstöðu fyrir akstursíþróttir í sveitarfélaginu.
Deildin mun leggja kapp á að veita iðkendum vélhjólaíþrótta aðstöðu til æfinga og keppni. Auka þannig möguleika iðkenda á að sinna íþróttinni við skipulagðar aðstæður og um leið minnka líkurnar á því að slíkur akstur fari fram á stöðum þar sem meiri truflun og skemmdir á náttúru geti orðið.
Til að deildin geti gengt hlutverki sínu skv. samningi þessum þá fær hún til leigu og afnota lóð og afnotsvæði í eigu sveitarfélagsins. Hið leigða er lóðin Rangárvallavegur 1, lóðarnúmer 234963 ásamt afnotarétti af svæði utan lóðar sem eru nánar útlistuð í samningnum.
Í framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir því að svæðið verði tilbúið fyrir notendur í júní.
Eitt af skilyrðum samningsins er að skýrar umgegnisreglur þurfa að vera til staðar fyrir svæðið á áberandi stað á svæðinu. Einnig að opnunartími svæðis er að hámarki frá kl. 11:00 – 21:00 og ber deildinni að fylgja því eftir að svæðið verði ekki notað á öðrum tíma án samþykkis sveitarfélagsins.
Framkvæmdir eru hafnar á svæðinu og manir byrjaðar að myndast.