Skipulagsdeild sveitarfélagsins hefur alltaf næg verkefni og jafnan mörg mál sem liggja fyrir hjá skipulags- og umferðarnefnd á hverjum fundi.
Síðasti fundur var 8. júlí síðastliðinn og voru þar ýmis áhugaverð mál á dagskrá sem íbúar gætu viljað kynna sér betur.
Yfirferð umferðarmála í Helluþorpi
Fulltrúi lögreglunnar og fulltrúi sveitarfélagsins fóru nýlega yfir stöðu umferðarmála í Helluþorpi. Niðurstaða þeirrar yfirferðar er sú að skipulags- og umferðarnefnd leggur til að hámarkshraði á Þrúðvangi, Helluvaðsvegi, Dynskálum, Langasandi, Langöldu og Eyjasandi verði áfram 50 km/klst. en að hámarkshraðinn í öllum öðrum götum innan þéttbýlismarka Hellu verði 30 km/klst.
Hreyfing á Árhúsasvæðinu
Nýr eigandi Árhúsa hefur staðið í endurbótum á smáhýsunum við árbakkann undanfarið og hefur nú sótt um leyfi til að setja niður auglýsingaskilti við Suðurlandsveg. Nefndin telur skiltið sem sótt er um of nálægt miðað við reglur sveitarfélagsins og leggur til að umsækjandi finni ásættanlega staðsetningu í samráði við Vegagerðina og Rangárþing ytra.
Stór áform um trjáplönturæktun í Gunnarsholti
Í fundargerð nefndarinnar segir að félagið Gbest hafi fengið heimild til að gera breytingar á landnotkun í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þar kemur einnig fram að áætlanir félagsins feli í sér að taka um 60 hektara úr landi Gunnarsholts undir ræktun skógarplantna í gróðurhúsum auk þess sem gert er ráð fyrir að planta stóru skjólbelti umhverfis starfsemina innan lóðarmarka.
Gangstétt við Langasand
Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir því að leggja gangstétt meðfram Langasandi, á milli Dynskála og Eyjasands. Skipulagsnefndin samþykkir beiðnina fyrir sitt leyti og leggur til að sveitarstjórn geri slíkt hið sama.
Nánar má lesa um þessi mál og önnur sem voru til umfjöllunar hjá nefndinni í fundargerðinni með því því að smella hér.