Orð eru til alls fyrst

Degi íslenskrar tungu var fagnað að venju 16. nóvember síðastliðinn. Í kjölfar þess barst okkur saga af afar skemmtilegu verkefni sem 3. bekkur grunnskólans á Hellu vann í tilefni dagsins.

Verkefnið fólst í því að bekkurinn gekk í alla bekki skólans og fékk nemendur til að skrifa eitt fallegt, íslenskt orð á blað.

Krakkarnir klipptu orðin svo út í hjarta og límdu hjörtun á vegginn fyrir utan stofuna sína.

Hrafnhildur Valgarðsdóttir, umsjónarkennari bekksins, leggur mikla áherslu á læsi og tungumálið í öllu námi krakkanna. Verkefninu var ætlað að fagna íslenskunni á jákvæðan hátt sem tókst svo sannarlega.

Meðal fallegu orðanna sem komust á blað voru ást, lífið, vinur, pabbi, friður, dásemd og mamma.

Nú er mörgum tíðrætt um að íslenskan sé á undanhaldi en samkvæmt Hrafnhildi er framtíðin björt. Í samræðum við krakkana var samhljómur um að það þyrfti að passa upp á tungumálið en jafnframt að við ættum að fagna fjölbreytileikanum.

Þau sem vilja kynna sé verkefnið betur geta kíkt í skólann og skoðað afraksturinn við sviðið á yngstastigsganginum.

Takk Hrafnhildur og nemendur Grunnskólans á Hellu fyrir þetta flotta framtak.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?