Út er komið ritverkið Veiðivötn á Landmannaafrétti. Bókin fjallar um svæðið sem er á milli Þjórsár og Vatnajökuls – norður fyrir Köldukvísl og suður á afrétti Skaftártungumanna og Landmanna. Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún er höfundur meginefnis. Ritverkið sem er tvö bindi er hin vandaðasta og prýtt fjölda fallegra mynda.
Í bókinni er jarðsagan rakin frá því er ísa leysir í lok jökultímans. Sögð er saga allra helstu Tungnaárhraunanna. Sagan er rakin frá Landnámsöld til okkar tíma og sagt frá þeirri starfsemi sem nú er rekin í Veiðivötnum. Fjallað er um náttúru Veiðivatna: gróður, landdýr, fugla og fiska. Einnig er í bókinni horft til framtíðar m.t.t. verndunar lands og lífríkis.
„Segja má að ég hafi hafið vinnu við bókina sumarið 1984 (fyrir 33 árum). Eitt af því fyrsta var að útbúa mikinn spurningalista, sem ég lagði fyrir menn sem nú eru löngu látnir. Enginn þessara manna vissi svör hins, og bar ég þau síðan saman. Lengi gat ég ekki einbeitt mér að ritun bókarinnar (þ.m.t. rannsóknarvinnu), vegna þess að ég þurfti eins og flestir aðrir, að vinna fulla vinnu til lífsframfæris. Frá vori 2012 má segja að ég hafi notað „allar stundir” í þágu þessa verkefnis,“ segir Gunnar.
Bókin verður til sölu á 8.500 krónur í Árvirkjanum, Eyravegi 32, Selfossi, hjá versluninni Veiðivon, Mörkinni 6, Reykjavík, Söluskálanum, Landvegamótum, Verslunininni Mosfelli, Rangárbakka 7, Hellu og hjá Fóðurblöndunni, Hlíðarvegi 2, Hvolsvelli. Prentmet Suðurlands sá um umbrot og bókarhönnun en bókin var prentuð í prentsmiðjunni í Reykjavík.