Þann 17. febrúar síðast liðinn fóru fram Nótutónleikar Tónlistarskóla Rangæinga. Nemendur stóðu sig með mikilli prýði og geta öll verið stolt af sinni frammistöðu.
Tónleikarnir voru liður í forvali fyrir Nótuna 2016 sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla á Íslandi. Hátíðin fer fram í apríl ár hvert.
Hátíðin er í raun þrískipt. Fyrst velur hver skóli atriði sem koma fram á svæðistónleikum sem haldnir eru í hverjum landsfjórðungi. Á svæðistónleikum eru síðan valin atriði sem koma fram á lokahátíð Nótunnar í apríl.
Þeir nemendur sem valdir eru í forvali innan skólanna eru alla jafna þeir nemendur sem sína jafnar framfarir tæknilega og músíklega, eru með góða verkefnastöðu, sinna náminu sínu mjög vel og ástunda öguð vinnubrögð.
Val á nemendum snýst ekki aðeins um tæknilega færni nemenda, sem þó þarf vissulega að vera til staðar, heldur er megináhersla lögð á heildrænt mat á öllum þáttum tónlistarnámsins, ekki síst tónlistarlegum skilningi, sem birtast þarf flutningi nemandans á tilteknu verki.
Við Tónlistarskóla Rangæinga verður þetta val inná forvalstónleika á vissan hátt handahófskennt því nemendur skólans eru heilt yfir góðir nemendur.
Upplýsingar um Nótuna má finna á heimasíðu Kennarasambands Íslands