Þann 1. febrúar s.l. var haldinn fundur til kynningar á fjármálum sveitarfélagsins. Það voru þau Klara Viðarsdóttir, fjármálastjóri, og Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri sem fluttu erindi um fjármál sveitarfélagsins ásamt því að svara spurningum sem fram komu.
18 manns voru saman í beinni útsendingu fundarins og auk þess 64 að horfa á Facebook þegar mest var.
Hér má nálgast þær glærur sem lagðar voru fram á fundinum.
Hér má nálgast fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélagsins.
Við hvetjum fólk að sjálfsögðu til þess að horfa á upptöku af fundinum sem er aðgengileg hér.
Hér að neðan má nálgast svör við þeim spurningum sem fram komu á fundinum.
Hvað orskakar lága rekstrarniðurstöður og aukna lántöku 2020?
Svar: Rekstrarniðurstaða ársins 2020 er lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ástæður má líklega alfarið rekja til COVID19 en tekjufall varð í formi lægra skatttekna auk þess sem framlag jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var lækkað. Til þess að standa undir fjárfestingaáætlun ársins 2020 var því ákveðið að fara í lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem annars var ekki ráðgerð.
Hvert fara línugjöldin?
Svar: Hér er líklega átt við gjöld sem innheimt eru fyrir áskrift að ljósleiðaratengingu. Rangárljós sem er félag í eigu Rangárþings ytra innheimtir þessi gjöld skv gjaldskrá sinni af þeim þjónustuaðilum sem selja síðan þjónustu til íbúa s.s. Símanum og Vodafone. Þessi áskriftargjöld eða línugjöld standa undir rekstri ljósleiðarakerfisins.
Fyrst það er fjölgun á bilinu 0-4. Hví er þá er ekki ráðið inná leiksskólanna?
Svar: Hér er verið að vitna til þess að aldurstré sveitarfélagsins sýnir að það er meiri fjölgun í yngstu aldurshópum í Rangárþingi ytra en að meðaltali á Íslandi og einnig í samanburði við nágrannasveitarfélög. Það er því eðlilegt að það fjölgi á leikskólunum hér hjá okkur enda hefur verið brugðist við þessu með því að bæta við deildum og fjölga starfsfólki á síðustu árum. Ef litið er til upplýsinga um leikskóla á landsvísu kemur fram að fjöldi barna á hvern starfsmann leikskóla hér hjá okkur er með því lægsta sem gerist hérlendis, sem ætti að benda til þess að skólarnir séu ágætlega mannaðir. Hins vegar geta aðstæður auðvitað verið mismunandi og slík meðaltöl þarf að skoða í samhengi við starfsemina á hverjum stað.
Er þessi tala um börn per/starfsmann á leiksskólanum Heklukoti. Hvernig er hún fundinn út?
Svar: Það er m.a. miðað út frá fjölda stöðugilda við uppeldi og menntun og heilsdagsígildi barna. Þessar upplýsingar er allar hægt að skoða á heimasíðu Sambands Íslenskra sveitarfélaga sjá hér.
Verður farið í byggingu nýs leikskóla og viðbyggingar á þessu ári?
Svar: Viðbygging grunnskólans og nýr leikskóli á Hellu er í undirbúningi. Samið var við Arkís arkítekta ehf vegna þróunar skólasvæðisins. Miðað er við allt að 2.000 m2 skólabyggingu og 1.200 m2 leikskólabyggingu ásamt aðlögun á núverandi byggingum 1.200 m2. Áætlað er að verkefni Arkís taki um 4 mánuði og ARKÍS skili vinnu sinni í formi frumdraga, byggingar- og kröfulýsingar og kostnaðaráætlunar til afgreiðslu hjá sveitarfélaginu þann 20. apríl 2021. Þá kemur betur í ljós hver tímalína verksins verður og hvort að framkvæmdir hefjist á þessu ári eða næsta.
Hvað hefur kostað sveitarfélagið vinna við sameiningu sveitarfélaganna?
Svar: Sveitarfélagið hefur ekkert þurft að leggja til annað en vinnu starfsmanna.
Mér finnst sveitarfélagið ekki vera gera nógu vel. Finnst ykkur vera tækifæri til þess að gera betur hvað varðar uppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu ? Þ.e. fjárframlög til íþróttafélaga, félagsmiðstöð, fístundastyrki, tómstundarútu og Íþróttamannvirki.
Já að sjálfsögðu er hægt að gera meira og betur – þannig hlýtur það alltaf að vera. En þegar um er að ræða fjárfestingar og slíkt þá þarf auðvitað að forgangsraða og setja upp áfanga. Það var sameiginleg niðurstaða sveitarfélagsins í samvinnu við íþróttafélögin á sínum tíma að setja í forgang að byggja við íþróttahúsið á Hellu. Þessum áfanga lauk nú á síðasta ári og niðurstaðan varð sú að útvíkka upphaflega hugmynd þannig að til hefur orðið frábær aðstaða fyrir líkamsrækt og einnig minni íþróttasalur með mýkra gólfi sem nýtist mjög vel. Næsta skref stærri uppbyggingar snýr að útisvæðunum og er það hluti af vinnu við þróun skólasvæðisins á Hellu. Nú er að ljúka endurskoðun á samningum við íþróttafélögin en sveitarfélagið ætlar sér áfram að styðja þau í hvívetna m.a. með fjárframlagi sem munar um. Hingað til hefur verið farin sú leið að styrkja íþróttafélögin beint til að bjóða fram námskeið og margvíslegt íþróttastarf fyrir unga fólkið í sveitarfélaginu. Beinir styrkir til þátttakenda koma auðvitað til greina en þurfa þá að ræðast í samhengi við það sem þegar er gert og mat á því hvað skili bestum árangri. Ekki hafa verið teknar ákvarðandi varðandi akstur í tómstundir eða á milli íþróttamannvirkja en er í umræðu og þá mögulega á sýsluvísu.
Ábending frá spyrjanda eftir svör við síðustu spurningu.
Takk fyrir þessi svör. Einn punktur, ekki spurning, þegar um er að ræða líkamsrækt sem er í dag er rétt að benda á að vissulega er world class flott aðstaða, en sveitarfélagið virðist algjörlega hafa gleymt að hugsa út í íþróttafélög, skóla o.fl. Þetta þjónustar ekki þessa hópa, með engu móti og eins og staðan er í dag er engin aðstaða fyrir þessa hópa sem hentar. Tökum t.d nemendur grunnskóla sem ekki þrífast í hópatímum, hvaða úrræði er fyrir þau? Styrktarþjálfun er undirstaða allrar þjálfun, hvaða úrræði er rangárþing ytra með fyrir íþróttafélögin í þeim efnum? Það má gera betur á mörgum vígstöðum.
Annar punktur, ekki spurning. Varðandi fjárframlög til íþróttafélaga. Einn samanburður. Ef styrk Grindavíkurbæjar til íþróttafélaga í sveitarfélaginu sínu er deilt niður á íbúafjölda er sveitarfélagið að styrkja u.þ.b 5.454kr.- á ári. Ef tekið er Rangárþing Ytra, framlög til bæði KFR og Heklu er það 3.142kr.- per íbúa. Þannig, það er umtalsvert lægra. Einnig má spyrja sig að því hvers vegna KFR sem er með 70% af sínu starfi í öðru sveitarfélagi fær jafn há framlög og UMF. Hekla sem rekur allt sitt starf í sveitarfélaginu og umtalsvert meira starf. Þannig að nei, það er ekki verið að gera nógu vel og mikið svigrúm til að gera betur :)
Yfirlit yfir styrki til íþróttafélaga í sveitarfélaginu
Íþróttafélagið Garpur: 400.000 kr
Samningur við Garp er í endurskoðun.
Ungmennafélagið Hekla: 2.750.000 kr
Knattspyrnufélag Rangæinga: 2.150.000 kr
Golfklúburinn Hella: 650.000 kr
Hestamannafélagið Geysir: 2.500.000 kr
Samtals: 8.450.000 kr
Íbúafjöldi 2020: 1682
Deilt á íbúafjölda: 5024 kr.
Verður ársreikningur og glærurnar á fundinum aðgengilegar á ry.is. ? Takk fyrir góða framsetningu.
Svar: Já allt aðgengilegt að loknum fundi og takk fyrir sömuleiðis.
Ef það eru einhverjar frekar spurningar ekki hika við að senda fyrirspurn á ry@ry.is