Eins og áður hefur komið fram, bæði hér á heimasíðu Rangárþings ytra og fréttabréfi, hefur nýtt hreinsivirki verið sett upp við fráveituna á Hellu. Unnið hefur verið að þessu verkefni í nokkurn tíma og var ákvörðun tekin um fjárfestinguna haustið 2010 við fjárhagsáætlunargerðina fyrir árið 2011.
Vegna óhapps í flutningum dróst afhending búnaðarins en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því að hann yrði kominn upp fyrir sumarið 2011. Því miður náðist það ekki og er óþarfi að fjölyrða um þau óþægindi sem urðu sumarið 2011 vegna fráveitunnar en þessi búnaður hefði að öllum líkindum komið í veg fyrir það óhapp sem þá varð. Búnaðurinn hefur nú verið í gangi í rúman mánuð og er virkni hans langt umfram væntingar. Hreinsibúnaðurinn fjarlægir allan fastan úrgang úr fráveitunni og er þannig komið í veg fyrir að hann berist í ána.
Til viðbótar hreinsibúnaðinum hefur rafrænum eftirlitsbúnaði verið komið á allan dælu- og rafbúnað fráveitunnar þannig að ef bilun verður er hún tilkynnt strax með símaskilaboðum. Því er nú hægt að bregðast við öllum bilunum á hvaða tíma sólarhrings sem er alla daga ársins.
Það er okkar von að Ytri-Rangá njóti sín hér eftir sem sú einstaka veiði- og útivistarperla sem hún svo sannanlega er.