Golfsumarið hefst 1. maí !

Golfparadís á Strönd á Rangárvöllum
Strandarvöllur, golfvöllurinn á Strönd, sem er rétt austan við Hellu er sannkölluð paradís. Golfklúbburinn á Hellu var stofnaður 22. júní 1952 og fagnar því 70 ára afmæli á þessu ári. Uppbygging Strandarvallar hófst 1970.

Golfvöllurinn
Golfvöllurinn er 18 holu golfvöllur og gríðarlega vinsæll. Árlega eru spilaðir um 10 – 12.000 hringir á vellinum. Félagsstarf golfklúbbsins er öflugt og eru vikuleg innanfélagsmót haldin allt frá byrjun tímabils og fram í ágúst. Eftir að innanfélagsmótinu lýkur tekur við haustmótaröð félagsmanna.

Framundan
Markaðs- og kynningarfulltrúi sveitarfélagsins sló á þráðinn til nýkjörins formanns Golfklúbbsins, Guðmundar Ingvarssonar, og spurði út í komandi sumar.

  • Hvenær hefst golfsumarið á Strönd?
  • „Formlega hefst það 1. maí“.
  • Eru fleiri viðburðir en innanfélagsmótin áætluð í sumar?
  • „Svo sannarlega. Þann 22. júní fer fram Íslandsmót 17-19 ára stúlkna og drengja á vegum GSÍ. Svæðið er einnig leigt til annara viðburða. Verið er að vinna að nýrri heimasíðu sem fer í loftið á næstu dö Þar verða allar helstu upplýsingar um það sem er á döfinni. Sumarið leggst virkilega vel í mig, það er alltaf að fjölga í klúbbnum, sem er verulega jákvætt, og við vonum að það haldi bara áfram,“ segir Guðmundur.

Afþreyingar möguleikar svæðisins endalausir
Fyrir þá sem vilja gera sér glaðan dag og fara á Strandarvöll og spila golf er rétt að benda á að í nágrenninu er fjölbreytt úrval afþreyingar- og veitingastaða. Hægt er að slaka sér í sundlauginni á Hellu, fá sér að borða á einum af hinum frábæru veitingastöðum svæðisins, nú eða bæta við þekkinguna og heimsækja Hellana við Hellu. Nánari upplýsingar um það sem svæðið hefur uppá að bjóða er hægt að finna á www.visithella.is

Eldri borgarar með lögheimili í Rangárþingi ytra spila frítt
Samkvæmt samningi milli Rangárþings ytra og GHR spila eldri borgarar endurgjaldslaust á Strandarvelli og hvetjum við þá til þess að nýta sér það. Golf er gríðarlega skemmtileg og góð heilsuefling.

Æskulýðsstarf
Golfklúbburinn heldur úti reglulegum æfingum yfir sumartímann fyrir ungmenni að 18 ára aldri. Æfingarnar eru auglýstar á heimasíðu klúbbsins sem og samfélagsmiðlum. www.ghr.is

Opinn dagur
Stefnt er að því að halda opinn dag í sumar þar sem íbúar í Rangárþingi ytra geta komið og kynnt sér starfsemi golfklúbbsins og prófað þessa skemmtilegu íþrótt. Opinn dagur verður auglýstur þegar dagsetning liggur fyrir.

Spilum golf!
Við hvetjum alla til þess að kynna sér starfsemi þessa skemmtilega Golfklúbbs og gera sér ferð á Strandarvöll og prófa. Golf er íþrótt sem allir geta stundað.

Frétt þessi birtist í fréttabréfi Rangárþings ytra sem nálgast má hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?