
Fréttabréf Rangárþings ytra er mánaðarleg samantekt helstu frétta og viðburða sem snerta sveitarfélagið. Ef þú ert með ábendingar um efni sem þér finnst að eigi heima í fréttabréfinu skaltu endilega senda upplýsingar á osp@ry.is.
Veðurannáll
Mars var frekar tíðindalítill hvað veður varðar en þann 30. mars gerði þó öflugt þrumuveður sem sást og heyrðist vel um allt sveitarfélagið. Nokkrar umhleypingar hafa verið eins og algengt er á þessum árstíma en veður hefur almennt verið frekar milt. Nú er vorið á næsta leyti samkvæmt dagatalinu og óskandi að tíðin verði góð.
Heimasíðan okkar allra tekur breytingum
Undanfarna mánuði hefur farið fram undirbúningsvinna við breytt útlit og uppfært leiðarkerfi heimasíðu sveitarfélagsins, ry.is. Nú sér fyrir endann á þeirri vinnu sem vonandi skilar sér í betri og aðgengilegri síðu fyrir okkur öll. Gera má ráð fyrir að síðan verði í smá viðhaldsfasa eitthvað fram í apríl þótt við reynum að láta þetta ganga hratt og vel.
Endilega sendið ábendingar á osp@ry.is ef þið rekist á eitthvað athugavert eða fyllið út þetta eyðublað: https://www.ry.is/is/ibuar/heimili-og-fjolskyldur/eydublod-og-umsoknir/eydublod
Breytingar á sorphirðu og nýr framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs.
Í byrjun mars var tilkynnt að Sorpstöðin bæði nú íbúa um að nota bréfpoka í stað maíspoka undir lífrænan úrgang. Í stuttu máli er ástæðan sú að maíspokarnir hafa reynst illa við úrvinnsluna, brotna illa niður og því nauðsynlegt að skipta yfir í bréfpoka. Íbúar geta nálgast eitt búnt á skrifstofu sveitarfélagsins og hafa nú þegar fjölmargir sótt sitt búnt og flestir hafa tekið breytingunni vel.
Nánar má lesa um málið hér og alltaf er hægt að hafa samband ef spurningar vakna.
Undir lok febrúar var auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra Sorpstöðvar Rangárvallasýslu og undir lok mars var tilkynnt að heimamaðurinn Víðir Reyr Þórsson hefði verið ráðinn í starfið. Nánar má lesa um málið hér og óskum við Víði velfarnaðar í starfi um leið og Einari Bárðarsyni, fráfarandi framkvæmdastjóra, eru þökkuð vel unnin störf.
Eggert Valur Guðmundsson oddviti og Víðir Reyr Þórsson handsala ráðninguna.
Fréttir úr stjórnsýslunni
Bundið slitlag verður lagt á efri hluta Landvegar
Landsvirkjun hefur óskað eftir framkvæmdaleyfi fyrir uppbyggingu efri hluta Landvegar í tengslum við fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á svæðinu. Nánar má lesa um málið undir lið 19 í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar með því að smella hér.
Opið fyrir umsóknir í Menningarsjóðinn
Markaðs- menningar og jafnréttismálanefnd óskar eftir umsóknum í Menningarsjóð Rangárþings ytra. Umsóknarfrestur er til og með 30. apríl og hvetjum við fólk til að kynna sér málið og sækja um. Smellið hér til að nálgast frekari upplýsingar og umsóknareyðublað.
Opið fyrir umsóknir í vinnuskólann
Opið er fyrir umsóknir í vinnuskólann sumarið 2025 en hægt er að sækja um fyrir árganga 2009–2012. Smellið hér til að kynna ykkur málið.
Hugmyndir um hús frítímans
Á síðasta fundi byggðarráðs var tekið fyrir minnisblað byggðaþróunarfulltrúa varðandi hugmyndir um „Hús frítímans“. Hugmyndin byggir á svipuðu verkefni í Skagafirði og er í grunninn sú að Hús frítímans gæti þjónað sem miðlægur staður fyrir íbúa á öllum aldri til að taka þátt í margvíslegri tómstunda- og menningarstarfsemi. Byggðarráð hefur veitt heimild til að ráðast í þarfagreiningu og frekari skoðun málsins. Minnisblaðið og bókun byggðarráðs má lesa í heild sinni undir 6. lið í fundagerð byggðarráðs frá 26. mars sem má skoða með því að smella hér.
Sveitarfélagið veitir vilyrði fyrir tónleikum
Bjarki Eiríksson lagði fram beiðni til sveitarstjórnar um leyfi til að halda fjölskyldutónleika á útivistarsvæðinu við Nes á Hellu 21. júní næstkomandi. Sveitarfélagið hefur veitt leyfi fyrir viðburðinum fyrir sitt leyti og leggur áherslu á að hann verði kynntur vel fyrir nærsamfélaginu. Spennandi verkefni sem gaman verður að fylgjast með verða að veruleika. Meira um málið hér.
Skólafréttir
Það er alltaf nóg að gera í skólum og leikskólum sveitarfélagsins.
Vorhátíð Helluskóla fer fram 3. apríl og byrjar kl. 17:30.
Laugalandsskóli hélt nýlega undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar og verða þær Tinna Lind Brynjólfsdóttir og Anna Sigríður Erlendsdóttir fulltrúar skólans í aðalkeppninni sem fer fram í Vestmannaeyjum 13. maí næstkomandi.
Sigrún Björk Benediktsdóttir, leikskólastjóri á Laugalandi hefur lagt fram uppsögn sína en hún hyggst ljúka störfum næsta haust vegna aldurs. Mögnum ehf. mun halda utan um ráðningarferli nýs leikskólastjóra.
Páskafríið er svo vitanlega á næsta leyti en skólarnir hafa sent út tilkynningar til foreldra varðandi það.
Endilega fylgist með starfi skólanna á þeirra miðlum – þau eru dugleg að miðla því sem er í gangi hverju sinni:
Heimasíða Grunnskólans á Hellu: https://www.grhella.is/
Heimasíða Laugalandsskóla: https://laugalandsskoli.is/
Hvað er framundan?
Apríl er tími ársfunda og páskabingóa og hvetjum við áhugasöm til að athuga málið:
- Páskabingó Geysis verður í Rangárhöllinni 15. apríl kl. 17
- Páskabingó Foreldrafélags Helluskóla verður 19. apríl kl. 12 í íþróttahúsinu á Hellu
- Íþróttafélagið Garpur heldur aðalfund 8. apríl kl. 17 í matsal Laugalandsskóla
- Ungmennafélagið Hekla heldur aðalfund 9. apríl kl. 19 í Grunnskólanum á Hellu
- Skógræktarfélag Rangæinga heldur aðalfund 10. apríl kl. 19:30 í Safnaðarheimilinu á Hellu
- Hestamannafélagið Geysir heldur aðalfund 14. apríl kl. 20 í Rangárhöllinni
- Ungmennafélagið Framtíðin heldur aðalfund 14. apríl kl. 20 í íþróttahúsinu í Þykkvabæ
Fjöldi annarra viðburða er framundan á svæðinu. Má þar nefna vortónleika Karlakórs Rangæinga og Kabarettsýningu eldri söngnema við Tónlistarskóla Rangæinga. Endilega skoðið viðburðadagatalið á suðurlíf.is og munið að allir geta skráð sinn viðburð þar.
Á suðurlíf.is eru upplýsingar um allt sem tengist íþróttum, tómstundum, viðburðum og menningu á svæðinu. Ef þú ert að halda viðburð geturðu skráð hann þar eða látið okkur vita og við sett hann inn. Hafið endilega samband á osp@ry.is varðandi spurningar um suðurlíf.is.
Hér var stiklað á stóru og auðvitað er margt fleira í gangi á svæðinu. Við mælum með að fylgjast með fréttum og tilkynningum á miðlum sveitarfélagsins.
Heimasíðunni: ry.is
Fylgið okkur líka endilega á Facebook og Instagram
Markaðs- og kynningarfulltrúi tekur glöð við fréttaskotum, tilkynningum og hverju sem íbúar vilja koma á framfæri í gegnum netfangið osp@ry.is. Við viljum flytja fréttir af stóru sem smáu sem á sér stað innan sveitarfélagsins.