Framtíðin er í þínum höndum

Grein af vef www.svsudurland.is

Á laugardaginn kemur verður gengið til kosninga um sameiningu Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps. Sameiningarviðræðurnar eiga sér töluverðan aðdraganda. Sveitarfélögin eru í umfangsmiklu samstarfi sín á milli þar sem eru ýmis tækifæri til einföldunar í rekstri og ákvarðanatöku.

Með vísan til þess góða samstarfs var í byrjun árs 2020 ákveðið að hefja óformlegar sameiningarviðræður og eiga samráð við íbúa. Haldnir voru rafrænir samráðsfundir í október 2020 og í framhaldinu skoðanakönnun fyrir íbúa sveitarfélaganna til að kanna áhuga þeirra á sameiningarviðræðum. Í upphafi þessa árs hófust formlegar sameiningarviðræður.

Samstarfsnefnd var skipuð þremur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi og var markmið viðræðnanna að sameining, ef til hennar kemur, leiddi til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum slagkrafti við að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum.

Vinna við verkefnið hefur gengið vel. Samstarfið hefur verið gott, þar sem samskipti hafa verið hreinskiptin og uppbyggileg. Samstarfsnefndin hefur ekki alltaf verið sammála en öll mál hafa verið til lykta leidd og góð samstaða er um helstu hagsmunamál svæðisins. Sex starfshópar voru skipaðir um ýmsa málaflokka og haldnir voru íbúafundir í öllum sveitarfélögum til að ná fram hugmyndum íbúa. Á sjötta tug íbúa og starfsfólks tók þátt í vinnu starfshópa og rúmlega 300 íbúar mættu til rafrænna samráðsfunda haustið 2020.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins, svsudurland.is. Þar er hægt að þýða allt efni á ensku og pólsku, en margir erlendir íbúar sveitarfélaganna hafa rétt til að kjósa. Síðustu vikur hefur samstarfsnefndin staðið fyrir kynningu svo íbúar geti myndað sér skoðun fyrir laugardaginn kemur.

Samstaða sveitarfélaganna fimm hefur vakið athygli og sameiginlegum hagsmunamálum hefur verið komið á framfæri við alla þingflokka og ríkisstjórn. Helsta hagsmunamálið er stóraukin uppbygging héraðs- og tengivega um svæðið, og aukið viðhald á Þjóðvegi 1.

Hver svo sem niðurstaðan verður á laugardaginn, þá eru helstu hagsmunamál sveitarfélaganna komin betur á dagskrá, samstaða sveitarfélaganna er meiri og íbúar hafa tekið umræðu um þau mál sem brenna á samfélaginu. Við stöndum sterkar saman.

Við hvetjum alla til að mæta á kjörstað á laugardaginn, eða greiða atkvæði utan kjörfundar. Æskilegt er að þátttaka verði góð og niðurstaðan skýr.

Anton Kári Halldórsson, oddviti Rangárþings eystra og formaður samstarfsnefndar

Ásta Begga Ólafsdóttir, oddviti Ásahrepps

Björk Grétardóttir, oddviti Rangárþings ytra

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps

Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?