Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri, við Ægissíðufoss.
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri, við Ægissíðufoss.

Senn líður í aldanna skaut einstakt ár í lífi okkar allra – árið þegar hægðist á öllu, árið þegar við fengum Ísland aftur út af fyrir okkur – árið þegar við vorum mikið heima og fórum eiginlega ekki neitt. Í rauninni ekki að öllu leyti slæmt ef ekki hefði verið þessi farsótt líka með heilsubresti hjá fjölda fólks um veröld alla og aðrir fylgifiskar í formi tímabundinna erfiðleika í atvinnulífi – sérstaklega ferðaþjónustu. Líklega hvarflaði ekki að neinu okkar að við myndum upplifa svona tíma. En þeir eru sannarlega lærdómsríkir.


Hér á okkar svæði hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því hve íbúar hafa tekið þessu ástandi öllu af rósemi og með skynsemi og seiglu. Smit hafa sem betur fer ekki orðið mikil hér um slóðir og er þar fyrst og síðast að þakka almennri þátttöku íbúa hvað varðar skipulagðar smitvarnir og aðgát á alla lund og að fylgja þeim reglum sem yfirvöld sóttvarna hafa sett okkur. Vonandi tekst okkur að halda þetta út þar til bólusetningar hafa komið okkur út úr ástandinu fyrir fullt og allt – þess mun víst ekki langt að bíða ef marka má fréttir af þróun bóluefna.

Vegna þessara skrítnu aðstæðna þá höfum við íbúar í Rangárþingi ytra eiginlega lítið komið saman á þessu ári til gleðjast, fagna nýjum áföngum eða segja frá einhverju sem til framfara hefur orðið á árinu. Nánast engin árleg hátíðahöld, opnanir, veislur eða töðugjöld. Gerðist kannski bara ekki neitt á þessu ári í sveitarfélaginu?


Jú það var svo sannarleg margt og mikilvægt sem gerðist. Atvinnulífið í sveitarfélaginu okkar hefur þrátt fyrir allt gengið að mörgu leyti vel og það er ekki mikið atvinnuleysi hér um slóðir. Vissulega er sárt að horfa á hótelin okkar, veitingastaðina og önnur fyrirtæki sem byggja á heimsóknum ferðamanna, standa í ströngu. Samkomutakmarkanir reynast mörgum fyrirtækjum erfiðar vegna minni umsvifa eða lokana en það er líka aðdáunarvert að sjá fólk reyna nýjar leiðir og breyta starfseminni til að þreyja þorrann. Það er líka erfitt að þurfa nú að draga saman í umsvifum sveitarfélagsins, skera niður, fresta, þrengja að og taka lán sem við höfum reyndar lítið gert af síðustu árin. Góðu tíðindin eru samt þau að þetta er tímabundið ástand og landið mun rísa á ný. Svo má ekki gleyma því að okkur íbúum í Rangárþingi ytra fjölgaði á þessu ári – erum orðin 1.750 – og mikið byggt, enda veitir ekki af. Svo var nú bara ágætt veður hjá okkur, ekki má gleyma því, vinna við heyskap og aðra uppskeru gekk vel og við fórum á fjall og sóttum fé eins og ævinlega. Þrátt fyrir allt þá gekk lífið að mörgu leyti sinn vana gang.


Af rekstri sveitarfélagsins okkar þá stendur upp úr hve starfsfólk stofnana sveitarfélagsins stóð sig með einstakri prýði við að halda starfseminni gangandi – oft við erfiðar aðstæður. Grunnskólarnir og leikskólarnir sinntu sínu gríðarlega mikilvæga hlutverki frábærlega; íþróttamiðstöðin stóð sína vakt með sóma; starfsfólk þjónustumiðstöðvar sinnti störfum vel, Helluþorp var vel hirt í sumar, slegið og snurfusað. Í sérstöku atvinnuátaki fyrir unga fólkið tókst að skapa sumarvinnu fyrir nánast alla sem vildu taka þátt. Þá má alveg nefna skrifstofuna með öllu sínu mikilvæga utanumhaldi um fjármálin, byggðasamlögin og önnur verk – þetta gekk ágætlega þrátt fyrir allt.


Við gerðumst heilsueflandi samfélag og átak til heilsueflingar fyrir heldri borgara sló í gegn og verður vonandi fastur liður áfram. Við lukum við að byggja við Íþróttahúsið á Hellu, glæsilega heilsurækt, fjölnota íþróttasal og geymslur. Það tókst að ljúka byggingu á nýrri slökkvistöð á Hellu. Við héldum áætlun við stórfelldar framkvæmdir við Vatnsveitu okkar. Við lokuðum byggðasöguhringnum og fögnuðum útgáfu á veglegri Hellubók í tveimur bindum. Það var reyndar nánast eina partíið sem okkur tókst að halda. Við reistum Oddabrú og tókum þar með mikilvægt skref í bættum samgöngum innnan héraðs. Vígsla verður hins vegar að bíða betri tíma eins og margt annað. Fáir urðu viðburðirnir en þó má ekki gleyma Flughátíðinni með loftbelgsferðum og eins Landssýningu kynbótahrossa á Hellu sem tókst hvoru tveggja vel. Við tókum til hendinni á Laugalandi og höfum þar lokið stórum áfanga í viðhaldi húsa og nýbygginu bílaplans. Við lukum við algjöra endurnýjun á félagslegum íbúðum sveitarfélagsins og eigum nú 6 hagkvæmar og nýjar íbúðir sem strax nýtast vel. Þá höfum við nýtt tímann vel til að undirbúa stóra framkvæmd á skólasvæðinu á Hellu með viðbyggingu við grunnskólann og nýjan leikskóla. Það verður okkar stærsta framkvæmd á næstu misserum og árum og er tilhlökkunarefni. Við héldum meðal annars einn fyrsta rafræna íbúafundinn hérlendis til að undirbúa það verkefni – sem tókst ótrúlega vel satt best að segja. Það er örugglega eitt af því sem við öll lærðum betur á þessu ári – við lærðum á rafræn samskipti. Setning ársins verður líklega „þú ert á mjút“ En þó Zoom og Teams fundir séu hagkvæmir og skilvirkir þá kemur ekkert í staðinn fyrir að hittast og umgangast. Vonandi megum við gera það í ríkum mæli á nýju ári – við þurfum á því að halda. Megi nýtt ár færa okkur öllum gæfu og gleðiríka daga.

Mínar bestu jólakveðjur
Ágúst Sigurðsson

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?