Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir fólksflóttann frá Úkraínu síðustu daga þann mesta sem sést hefur í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Aldrei hafa jafn margir flúið eitt og sama landið á jafn skömmum tíma og nú. Íslendingar undirbúa sig nú undir að taka á móti fólki frá Úkraínu og kallað er eftir allri þeirri aðstoð sem möguleg er. Sveitarstjórn Rangárþings ytra lýsti á fundi sínum í gær yfir fullum vilja til þess að koma að móttöku flóttamanna eftir bestu getu en fyrir liggur að Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur skipað sérstakan aðgerðarhóp vegna þessa neyðarástands og verið er að þróa samræmda móttöku flóttafólks. Að verkefninu koma auk sveitarfélaga, Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur auk þess sem ráðuneytið er með samning við Rauða krossinn um félagslegan stuðning. Fram kemur að nú þegar hefur fjöldi aðila boðið fram húsnæði um allt land í verkefnið og því hefur verið settur upp sérstakur hlekkur á heimasíðu Fjölmenningarseturs þar sem hægt er að skrá húsnæði til leigu.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra hvetur íbúa, fyrirtæki og félagasamtök til að skrá mögulegt húsnæði á miðlægan vef Fjölmenningarseturs til að auðvelda íslenskum stjórnvöldum undirbúning móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Skráning er nú með samræmdum hætti á heimasíðu Fjölmenningarseturs og er slóðin: (https://www.mcc.is/is/ukraine/)