Lýður Skúlason, Guðmundur Ingi Hjartarson og Finnur Björn Harðarson kynntu sl. vor fyrir sveitarstjórn hugmyndir sínar um möguleika til fiskiræktar í efri hluta Eystri-Rangár með tilheyrandi atvinnuuppbyggingu tengdri laxveiði. Í framhaldinu sendu þeir inn erindi til sveitarstjórnar um möguleg kaup á landi sem liggur að efri hluta Eystri-Rangár. Sveitarstjórn hafnaði því en ákvað jafnframt að kanna hvort aðrar leiðir væru færar t.d. einhver útfærsla á leiguleið. Þess ber að geta að jörðin Keldur sem er í eigu fjölskyldu Lýðs Skúlasonar liggur að fyrrgreindu landi og gegnir lykilhlutverki gagnvart möguleikum þess að stunda fiskirækt í efri hluta Eystri-Rangár. Málið var til formlegrar umfjöllunar á fundum sveitarstjórnar nr. 33,35 og 40 þann 15.4.2021, 10.6.2021 og 11.11.2021. Í samræmi við samhljóða ákvörðun sveitarstjórnar á 35. fundi þá var sveitarstjóra falið að vinna málið áfram og á 40. fundi sveitarstjórnar var lögð fram tillaga að leigusamningi sem hefur síðan þá verið opin öllum til skoðunar. Jafnframt liggur fyrir greinargerð um áformin frá þeim sem standa að verkefninu. Samningurinn er til 5 ára og uppsegjanlegur fyrir báða aðila gangi áætlanir um uppbygginguna ekki eftir en framlengjanlegur um 30 ár ef báðir aðilar telja árangur hans í takt við áætlanir. Í leigusamningi eru beitarréttindi undanskilin auk landspildna sem þegar eru leigusamningar um við aðra aðila. Áfram er því miðað við að nýta landið fyrir sauðfjárbeit á vegum fjallskiladeildar Rangárvallaafréttar með óbreyttum hætti frá því sem verið hefur. Þá getur sveitarfélagið skipulagt og nýtt og eftir atvikum selt allt að 100 hektara úr hinu leigða landi á samningstímanum.
Drög að samningi voru til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar þann 9. desember s.l. Þar kom fram að í ljósi gagnlegrar umræðu á fundinum og ábendinga sem hafa borist hefur sveitarstjórn ákveðið að efna til sértaks vinnufundar sveitarstjórnar um málið til að fjalla um samningstillöguna og þær ábendingar sem liggja fyrir. Reiknað er með að sveitarstjórn muni kalla þá aðila til fundar sem tengjast málinu og þörf þykir á að ræða við. Fundurinn verði haldinn í fyrstu viku janúar 2022.
Rétt er að benda áhugasömum á að kynna sér þessar hugmyndir en samningsdrögin má nálgast hér.
Greinargerð frá lögfræðingi sem lá fyrir sveitarstjórnarfundi 9. desember má nálgast hér.